Segir það skyldu Repúblikana að velja dómara

19.09.2020 - 18:17
epa08671776 US President Donald J. Trump offers a thumbs up as he walks on the South Lawn of the White House upon his return from Philadelphia; in Washington, DC, USA, 15 September 2020.  EPA-EFE/Yuri Gripas / POOL
 Mynd: EPA-EFE - ABACA POOL
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði í dag að það væri skylda Repúblikana að skipa nýjan dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna og það án tafar. Hann sagði að skipun hæstaréttardómara væri mikilvægasta ákvörðun sem kjörnir fulltrúar þyrftu að taka.

Trump sagði á Twitter að kjörnir fulltrúar væru kosnir til valda til að taka ákvarðanir í þágu fólksins sem hefði kosið þá. Því væri það skylda Repúblikana að velja hæstaréttardómara í samræmi við það.

Ruth Bader Ginsburg, dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna til 27 ára, lést í gær. Því þarf að skipa nýjan dómara í hennar stað. Repúblikanar hafa tækifæri til að tryggja 6-3 meirihluta dómara við dómstólinn sem skipaðir eru af forsetum úr röðum Repúblikana. Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeild þingsins, sagði í dag að hann myndi beita sér fyrir því að þingið myndi staðfesta þann sem Trump vildi skipa í embætti hæstaréttardómara. Fyrir fjórum árum neitaði hann að taka til umræðu skipun þess sem Barack Obama vildi gera að hæstaréttardómara nokkrum mánuðum fyrir kosningar. Því kom það í hlut Trumps að skipa nýjan forseta.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi