Dreymdi draum og ákvað að setja upp sýningu

Mynd með færslu
 Mynd: Hjörtur Skúlason - Aðsend

Dreymdi draum og ákvað að setja upp sýningu

19.09.2020 - 08:28

Höfundar

Listamennirnir Hjörtur Matthías Skúlason og Hulda Vilhjálmsdóttir opna myndlistarsýninguna Hugrún í dag, í Gallery Porti á Laugaveginum. Þar verða til sýnis brúður og skúlptúrar en hugmyndin að sýningunni kom til Huldu í draumi. Þegar hún bar drauminn upp við Hjört vin sinn ákváðu þau að sviðsetja hann og opna sýningu.

Hjörtur er vöruhönnuður og Hulda myndlistarkona. Þau kynntust fyrir tólf árum þegar Hjörtur vann á Kaffismiðjunni á Kárastíg og Hulda var tíður gestur þar ásamt fríðu föruneyti myndlistarmanna. Þau fóru að spjalla saman og komust fljótt að því að þau ættu margt sameiginlegt. Síðan hafa þau vanið komur sínar á öldurhús bæjarins og það var einmitt á einum slíkum fundi sem sýningin var plönuð. „Það var akkúrat fyrir ári síðan sem við Hulda hittumst yfir ölkrús og áttuðum okkur á að við deildum þeim draum að setja upp sýningu saman,“ segir Hjörtur. Og þá var þá sem Hulda sagði Hirti frá draumnum. „Draumurinn var í grófum drátttum sá að hún var úti í náttúrunni og hana heimsóttu einhvers konar verur sem voru bjartar og fullar af kærleik.“ Hjörtur fór að velta fyrir sér hvernig hann gæti best gert draumnum skil og leitaði hann í efni úr náttúrunni og mótaði svo verkin úr striga, ull og steinleir. „Það kom ekkert annað til greina þegar ég var að túlka draumverur Huldu,“ segir Hjörtur.

En hvaða verur eru þetta? „Ég spurði mig sjálfur: Eru þetta manneskjur, dúkkur eða kannski bara líkneski? Það má áhorfandinn bara túlka, hver fyrir sig,“ segir hann að lokum. Sýningin verður opnuð klukkan fjögur og segir Hjörtur að hún verði hrá og gamaldags eins og hans eigin list en einnig litaglöð og full af orku eins og Hulda.