10 starfsmenn á velferðarsviði smitaðir

Regína Ásvaldsdóttir sviðsstjóri velferðarsvið Reykjavíkurborgar í viðtali í Kastljósi 05.02.2018
 Mynd: RÚV
Tíu starfsmenn á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, meðal annars á þremur íbúðakjörnum fyrir fólk með fötlun, hafa greinst með COVID-19. Á annað hundrað manns hafa verið skimaðir vegna þess og í kringum 40 eru í sóttkví. Enginn íbúi hefur greinst smitaður. Þetta segir Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við fréttastofu.

Fá forgang í skimun

„Við erum stöðugt að senda fólk í skimun. Okkar fólk hefur ákveðinn forgang í skimun hjá heilsugæslunni og nú höfum við gert samning við Íslenska erfðagreiningu um hraða afgreiðslu,“ segir Regína. 

Aðspurð um þennan mikla fjölda smita í starfsmannahópnum segir hún að mjög margt fólk starfi á íbúðakjörnunum og að starfsfólkið sé flest ungt. Eins og fram hefur komið er langstærstur hluti þeirra sem greinst hafa síðustu daga ungt fólk. 

Starfsfólk fer ekki milli íbúa

„Það er mikilvægast af öllu núna að við erum ekki komin með neina staðfestingu á smitum hjá þeim sem búa á íbúðakjörnunum,“ segir Regína. 

Íbúarnir búa nær allir í séríbúðum og hver starfsmaður sinnir alltaf sama íbúanum til að koma í veg fyrir að starfsfólk flæði milli íbúa. „Þannig í eðli sínu er ákveðin hólfun í gangi,“ útskýrir hún. 

„Við erum með mjög strangar reglur og smitvarnir,“ segir hún. „Þegar ekki er hægt að viðhafa eins metra reglu er starfsfólk með grímur. Við höfum einnig hvatt starfsfólk til að viðhafa tveggja metra reglu sín á milli,“ bætir hún við. 

Setur starfseminni skorður að 40 séu í sóttkví

„Við erum með um 40 manns í sóttkví. Flestir eru starfsfólk en við erum líka með nokkra íbúa í sóttkví,“ segir Regína. Aðspurð um áhrif þess á starfsemina segir hún það skapa mikinn vanda. Til að bregðast við því hafi starfsfólk tekið á sig meiri vinnu og jafnvel tvöfaldar vaktir. Þá hafi verið leitað til fyrrum starfsmanna og haft samband við bakvarðasveit.

„Við munum auðvitað halda úti órofinni starfsemi, það er ekkert annað sem kemur til greina hjá okkur,“ segir Regína að lokum.  

Fréttin hefur verið uppfærð. Upphaflega sagði að starfsmennirnir 10 störfuðu allir á íbúðakjörnum fyrir fólk með fötlun. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi