Var með beltið vitlaust spennt og lést í bílslysi

18.09.2020 - 06:02
Mynd með færslu
 Mynd: ruv.is
Farþegi í aftursæti Nissan-jepplings sem lést í hörðum árekstri á Borgarfjarðarbraut í í september í fyrra var ekki með bílbeltið rétt spennt. Að mati rannsóknarnefndar samgönguslysa eru líkur á því að farþeginn hefði lifað slysið af hefði öryggisbeltið verið rétt spennt. Talið er að kröftug vindhviða hafi valdið því að ökumaður bílsins missti stjórn og fór yfir á rangan vegarhelming.

Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að bílnum hafi verið ekið austur Borgarfjarðarbraut að morgni dags. Í honum voru ökumaður og tveir farþegar í aftursæti. Það var rigning og bjart en talsverður vindur og gekk á með hviðum. 

Rétt austan Seleyrarár ók ökumaðurinn yfir á rangan vegarhelming og í veg fyrir Hyundai-bíl sem kom úr gagnstæðri átt. Ökumaður Nissan-bílsins lýsti því hvernig kröftug vindhviða kom á bílinn sem varð til þess að hann missti bílinn yfir á rangan vegarhelming.  Við áreksturinn kastaðist Hyundai-bílinn aftur um rúma tíu metra og snerist í hálfhring en Nissan-bíllinn snerist og rann áfram um fimm metra.

Í skýrslunni segir að ökumaðurinn hafi haft litla reynslu af akstri á Íslandi og honum hafi fundist erfitt að aka við þessar aðstæður. Þá reyndust hjólbarðar undir bílnum vera slitnir og tjara í mynstri. Þetta hafi getað skert möguleika ökumannsins á að bregðast við vindhviðu á blautu vegyfirborði.

Fram kemur í skýrslunni að farþeginn sem sat vinstra megin í aftursæti Nissan-bílsins hafi verið með öryggisbeltið ranglega spennt. Hann hafði sett axlarbeltið undir handarkrikann og hlaut banvæna brjóst- og kviðarholsáverka. „Að mati nefndarinnar eru líkur á að farþeginn hefði lifað slysið af hefði öryggisbeltið verið spennt með réttum hætti.“

Hinn farþeginn í aftursætinu var ekki spenntur í belti og kastaðist fram á sætisbakið fyrir framan. Ökumaðurinn var spenntur í belti, loftpúði í stýri blés út og hann hlaut ekki mikla áverka. 

Ökumaðurinn Hyundai-bílsins var einn á ferð. Hann var í belti og loftpúði í stýri blés út en hann hlaut mikla áverka sem nefndin telur mega rekja til þess að mikil aflögun varð í ökumannsrými bílsins. 

Nefndin leggur áherslu á í niðurstöðum sínum að belti eigi alltaf að vera rétt spennt. Þá kemur fram í skýrslunni að frá árinu 1996 hafi 11 banaslys verið rannsökuð þar sem vindhviða sé talin orsakaþáttur.  

Jafnframt bendir hún ökumönnum á að mikilvægt sé að halda hjólbörðum hreinum og þrífa tjöru. „Uppsöfnuð tjara minnkar veggrip.“ 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi