Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Tilkynningum um kynferðisbrot fækkar enn

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust átta tilkynningar um kynferðisbrot í ágúst. Í sama mánuði í fyrra voru tilkynningarnar 20. Tilkynningar um kynferðisbrot það sem af er ári eru um það bil helmingi færri en þær voru orðnar á sama tíma síðustu þrjú ár.

107 brot hafa verið tilkynnt það sem af er ári en síðustu þrjú ár voru þau orðin um og yfir 200 í ágúst. Þetta kemur fram í nýrri afbrotatölfræði frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 

Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisafbrotadeildar lögreglunnar, sagði í fréttum RÚV nýlega að ekki væri útlokað að fækkunin skýrðist að einhverju leyti af samkomubanni og styttri opnunartímum skemmtistaða, enda fækkaði tilkynningum hratt þegar samkomubann tók gildi. 

Hemilisofbeldi hefur hins vegar færst í aukana á árinu og það sem af er ári hefur lögreglunni borist 15 prósentum fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi en á sama tíma síðustu þrjú árin. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV