Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Staðirnir í raun tæknilega gjaldþrota

18.09.2020 - 17:03
Mynd: RÚV / RÚV
Kráareigandi á höfuðborgarsvæðinu gagnrýnir ekki ákvörðun um að loka krám og skemmtistöðum um helgina. Hann segir að margir staðir séu í raun gjaldþrota vegna þess að tekjur nægi ekki fyrir kostnaði. Hann kallar eftir aðgerðum af hálfu stjórnvalda og leggur til að fasteignagjöld verði felld niður og að áfengisgjöld verði felld niður eða lækkuð.

Glasaglaumurinn er þagnaður á öllum krám og skemmtistöðum á höfuðborgarsvæðinu. Í kvöld, á morgun og sunnudag og mánudag. Samtals í fjóra daga. Áður enn bannið rennur út verður metið hvort það verður framlengt eða ekki. Það á eftir að koma í ljós.  Fjögurra daga bannið nær til Reykjavíkurborgar, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar, Kjósahrepps, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Garðabæjar og Kópavogs. Það verður sem sagt skellt í lás á öllum skemmtistöðum og krám.

Skemmtistaður og krá

Samkvæmt reglugerð er skemmtistaður skilgreindur þannig: 

Veitingastaður með reglubundna skemmtistarfsemi og fjölbreyttar veitingar í mat og/eða drykk. Hér undir falla einnig staðir þar sem aðaláhersla er lögð á áfengis­veitingar, dans gesta, tónlist og langan afgreiðslutíma en engar eða takmarkaðar veitingar í mat. 

Og skilgreiningin á krá er þessi: 

Veitingastaður með takmarkaða þjónustu og einfaldar eða engar veitingar í mat, þar sem aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar og langan afgreiðslutíma.

Ástæðan fyrir því að krám og skemmtistöðum er tímabundið lokað er að sóttvarnalæknir óttast að stór hópsýking geti verið í uppsiglingu sem eigi uppruna sinn á krám og skemmtistöðum á höfuðborgarsvæðinu. Í minnisblaði sóttvarnalæknis sem hann sendi heilbrigðisráðherra í gær kemur fram að um fjórðung nýrra smita megi rekja til ákveðinnar krár í Reykjavík. Þá höfðu 38 einstaklingar greinst undanfarna þrjá daga. Allir á höfuðborgarsvæðinu. Í gær greindist 21 smit þannig að síðustu fjóra daga er fjöldi nýrra smita nærri 60 talsins.

Stjórnvöld skoði niðurfellingu fasteignagjalda og áfengisgjalds

Jón Bjarni Steinsson, eigandi skemmtistaðarins Dillons, gagnrýnir ekki stjórnvöld fyrir ákvörðun um að loka stöðunum. En er það skellur að þurfa að loka í fjóra daga?

„Við erum á mánuði átta í takmörkunum. Ég missi ekki svefn þó að það verði lokað um helgina.“

Hann segir að fjölmargir staðir séu í raun tæknilega gjaldþrota þegar innkoman dugi ekki fyrir útgjöldunum. Veitingastaðir fengu lokunarstyrk þegar skella þurfti í lás í vor. Jón Bjarni segir að hann dugi lítið. Rétt fyrir mánaðarleigu í mörgum tilfellum. Hann ákallar stjórnvöld að gera eitthvað í málunum. Það þurfi að gerast fljótt.

„Ég þarf að fara yfir það næstu daga hvort ég ætla að koma með peninga eða finna peninga til að halda rekstrinum gangandi í tapi eða hætta. Til þess að ég geti tekið þá ákvörðun þá þarf ég að vita hvort stjórnvöld ætli að gera eitthvað eða ekki,“ segir Jón Bjarni.

 Og hann er með hugmyndir um aðgerðir. Fasteignagjöld og áfengisgjald séu tveir stærstu kostnaðarliðirnir.

„Reykjavíkurborg getur til dæmis fellt niður fasteignagjöld á vínveitingastöðum gegn því að leigusalar lækki húsaleiguna á móti. Áfengisgjöld eru um helmingur útgjalda vínveitingastaða í Reykjavík. Ríkið gæti fellt þau niður, gefið afslátt eða frestað greiðslum,“ segir Jón Bjarni.

Kannað verður hvort staðirnir loka

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að skipulagt eftirlit verði um helgina með því að krár og skemmtistaðir hlýði lokunarbanninu. Gerður verður listi yfir þá staði sem eiga að vera lokaðir.

„Við munum fara og kanna hvort þeir eru lokaðir. Svo þurfum við líka að hafa mikið eftirlit með þeim stöðum sem eru opnir. Það eru mögulegt að það verði meiri þungi að komast inn á þá staði. Við verðum að fylgjast með að sóttvarnareglur séu í hávegum hafðar þar,“ segir Ásgeir.

Opnaðir í næstu viku?

 En verður bannið framlengt? Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að miðað við stöðuna sé líklegt að það verði hægt að opna aftur á þriðjudaginn.

„Ég hef nú nokkuð góða tilfinningu fyrir þessum fjölda sem við erum að greina núna á þann hátt að ég held að við séum núna að ná utan um þetta. Það gæti tekið nokkurn tíma að ná þessu niður. Ef svo verður næstu daga held ég að við getum farið að mæla með opnun aftur í næstu viku,“ segir Þórólfur.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV