Skemmtistöðum og krám lokað í fjóra daga

18.09.2020 - 10:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skemmtistöðum og krám á höfuðborgarsvæðinu verður lokað frá deginum í dag og fram á mánudag. Heilbrigðisráðherra féllst á tillögu sóttvarnalæknis um tímabundna lokun skemmtistaða og kráa í því skyni að sporna við útbreiðslu COVID-19. Reglugerð heilbrigðisráðherra þess efnis hefur þegar tekið gildi.

Þrjátíu og átta smit hafa greinst á síðustu þremur sólarhringum. Að minnsta kosti fjórðung þeirra má rekja til ákveðinna öldurhúsa í Reykjavík fyrir tæpri viku.

Þetta kemur fram í minnisblaði sóttvarnalæknis með tillögum um lokun skemmtistaða. Mikilvægt sé að bregðast við sem fyrst með markvissum aðgerðum til að koma í veg fyrir útbreiddan faraldur. 

Í minnisblaði sóttvarnalæknis mælir hann einnig með því að forráðamenn skóla og fyrirtækja verði hvattir til að skerpa á sýkingavörnum í samræmi við fyrirliggjandi leiðbeiningar og að fólk verði hvatt til að huga að einstaklingsbundnum sýkingavörnum. 

Í frétt á vef Stjórnarráðsins segir um fyrirhugaða lokun skemmtistaða og kráa: 

Lokunin tekur til kráa og skemmtistaða í Reykjavík, Mosfellsbæ, Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, Kjósarhreppi og á Seltjarnarnesi. Í 18. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 eru taldar upp og skilgreindar mismunandi tegundir veitingastaða. Í tilvikum þar sem staðir eru með rekstrarleyfi fyrir fleiri tegundum veitingastaða en krám og skemmtistöðum er áframhaldandi starfsemi heimil hvað þær tegundir varðar. Þannig geta veitingastaðir sem í rekstrarleyfi eru skráðir sem veitingahús eða kaffihús, haldið áfram starfsemi á þeim grundvelli, en kráar- og skemmtistaðastarfsemi er óheimil.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi