Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir afurðastöðvarnar veitast að bændum

Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Nautgripabóndi í Borgarfirði segir að sláturhúsin veitist að frumframleiðendum greinarinnar með lækkun afurðaverðs. Bændur eigi ekki annarra kosta völ en að hefja heimaslátrun í stórum stíl ef þrengt verði enn frekar að þeim.

Magnús Skúlason er bóndi í Norðtungu í Borgarfirði með 400 nautgripi. Hann framleiðir eingöngu nautakjöt og byggir afkomu sína á því. Hann segir að lækkun afurðaverðs hafi feikileg áhrif.

Telur sláturhúsin rétta úr kútnum á kostnað bænda

Magnúr segir að hljóðið í kollegum hans sé slæmt enda séu þeir að keppa við hömlulausan innflutning. Með lækkun afurðaverðs séu sláturhúsin að veitast að frumframleiðendum í greininni til að rétta sjálf úr kútnum í staðinn fyrir að hagræða eða leita leiða til að milda höggið með einhverjum hætti. Það sé alveg ljóst að lækkunin eigi ekki eftir að skila sér út í verslunina.

Sláturfélag Suðurlands, Kjötafurðastöð KS og Sláturhúsið á Hellu hafa öll tilkynnt lækkun á afurðaverði á nautakjöti, alveg frá 0,7% upp í 23%.

„Auðvitað hefur þetta gríðarleg áhrif, og bændur hafa engan kost. Ef það verður þrengt að okkur enn frekar þá munum við hefja heimaslátrun í stórum stíl og selja bara fram hjá öllu framleiðslukerfi innanlands, það eru engin önnur úrræði.“ segir Magnús. 

Hann hefur ekki reiknað út áætlað tekjutap en segir að fyrir liggi að það sé allt að 23% af 60 milljónum. Á meðan lækki rekstrarkostnaður, rúlluplast og áburður ekki í verði. Það sé sorglegt hvernig vegið sé að atvinnugreininni með einu pennastriki; „án samráðs, án viðvarana, án nokkurs fyrirvara,“ 

Enginn greinarmunur gerður á gömlu kýrkjöti og ungnauti

Þá telur hann að vörumerkingum sé mjög ábótavant og neytendur geri sér ekki grein fyrir hvað þeir séu að kaupa. Bæði kýr, naut og ungnaut falli undir nautakjöt og enginn greinarmunur sé gerður á því í kjötborðinu hvort kjötið sé af innfluttri gamalli kú eða íslensku ungnauti, neytandinn þurfi að þekkja það á litnum. „Þú sérð bara að þegar fitan af hakkinu er gul, þá er eitthvað að. Ef að kjötið er svart eða dökkrautt, þá er eitthvað að. Ljósa kjötið - það er sannarlega ungnautakjöt.“ segir Magnús.

Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun er seljenda skylt að veita upplýsingar um innihald vöru en heimilt að gera það á hvaða hátt sem er, þar með talið munnlega. Merkingar þurfa því ekki að vera sjáanlegar í kjötborðinu.