Ótrúlegur endasprettur tryggði Selfyssingum stig

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Ótrúlegur endasprettur tryggði Selfyssingum stig

18.09.2020 - 21:10
Magnaður endasprettur tryggði Selfyssingum stig gegn KA í kvöld. KA var með fimm marka forystu þegar aðeins átta mínútur voru til leiksloka en Selfyssingar gáfust ekki upp og tryggðu sér jafntefli með marki á lokasekúndum leiksins.

Önnur umferð Olís-deildar karla hélt áfram í kvöld þegar að Selfoss tók á móti KA. Selfyssingar unnu Stjörnuna í fyrstu umferð deildarinnar og KA sigraði Fram á sama tíma það var því hart barist á Selfossi í kvöld.

Heimamenn byrjuðu leikinn í kvöld mun betur og náðu snemma fjögurra marka forystu þegar að Hergeir Grímsson skoraði frá miðju og kom Selfyssingum 5 - 1 yfir. Við markið vöknuðu KA-menn til lífsins og byrjuðu hægt og rólega að saxa á forystu Selfyssinga og náðu að jafna þegar að tæplega tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Norðanmenn hættu ekki þar og þegar að flautað var til hálfleiks var staðan 11 - 13 fyrir KA. 

KA-liðið hélt uppteknum hætti í seinni hálfleik og var með tveggja til þiggja marka forystu lengst af. Þegar að 10 mínútur voru eftir af leiknum var staðan orðin 17 - 22 og staðan því ansi erfið fyrir heimamenn. Magnaður endasprettur hjá Selfyssingum hleypti spennu í leikinn og þegar að tvær mínútur voru eftir minnkuðu þeir muninn í eitt mark, 23 - 24. Varnarmenn Selfoss höfðu skellt í lás og skoraði ekki mark síðustu fimm mínútur leiksins. Eftir klaufagang í lokasókn KA-manna náðu Selfyssingar boltanum og jöfnuðu þegar að 35 sekúndur voru eftir. Leikurinn endaði því með jafntefli, 24 - 24. 

Allan Nordberg var markahæstur hjá KA með sex mörk og Nicholas Satchwell átti góðan leik í marki KA og varði 15 skot. Hjá Selfyssingum var Guðmundur Hólmar Helgason markahæstur með sjö mörk. 

Bæði lið eru því með þrjú stig eftir fyrstu tvær umferðinnar.