Ógætilegur akstur á vinnusvæði í Hvalfjarðargöngum

18.09.2020 - 13:16
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Þessa dagana er unnið að uppsetningu kantljósa í Hvalfjarðargöngum, en vinna fer fram á milli tíu á kvöldin og hálf sjö á morgnanna. Borið hefur á því að ökumenn sýni ekki nægilega tillitsemi þegar ekið er um vinnusvæðið.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að sex til átta manns vinna í göngunum á hverri nóttu. Loka þarf einni akrein í senn á 200 til 300 metra kafla, en umferðinni er stýrt á svæðinu.

Þrátt fyrir að unnið sé á nóttunni er umferðin þó nokkuð þung, sérstaklega þar sem margir stórir flutningabílar aka um göngin alla nóttina að sögn Jóhanns B. Skúlasonar yfirverkstjóra hjá Vegagerðinni.

„Vinnusvæðin eru vel merkt. Hraðinn er tekinn niður í 50 í göngunum og niður í 30 í kringum vinnusvæðið, en menn slá lítið af. Þetta getur verið hættulegt,“ segir Jóhann.

Áætluð verklok eru 15. október.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi