Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Listaháskólanum lokað í dag

18.09.2020 - 10:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Listaháskóla Íslands verður lokað í dag vegna fjölgunar smita í samfélaginu. Með lokuninni vilja forsvarsmenn Listaháskólans skapa svigrúm fyrir starfsfólk til að fara yfir sóttvarnaaðgerðir og sjá hvort smitum heldur áfram að fjölga yfir helgina og hver viðbrögð sóttvarnayfirvalda verða. Stefnt er að því að opna skólann á ný á mánudag.

Í tilkynningu sem Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskólans, sendi frá sér í gær er bent á að mörg þeirra smita sem greinst hafa síðustu daga tengist háskólastarfi. Skólinn vilji bæta skipulag og sóttvarnir og að dagurinn í dag verði nýttur í það.

Í gær kom fram að sex nemendur við Háskólann í Reykjavík væru smitaðir af COVID-19 og að minnsta kosti 5 starfsmenn Háskóla Íslands. Starfsfólkið væri ekki í nánu samstarfi og því ekki augljós tengsl milli smitaðra.