Kláruðu nafnalista fellibylja í annað sinn í sögunni

18.09.2020 - 22:46
epa08676867 Dr. Joe Mirabile goes through the second story office of his business that was partially destroyed by Hurricane Sally in Perdido Key, Florida, USA on 17 September 2020. Hurricane Sally made landfall on 16 September as a Category 2 hurricane.  EPA-EFE/DAN ANDERSON
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Veðurfræðingar eru nú teknir til við að nefna fellibyli eftir stöfum gríska stafrófsins. Alla jafna fá fellibylir heiti eftir fyrirfram ákveðnum nafnalista Alþjóða veðurfræðistofnunarinnar með einu nafni fyrir hvern staf í stafrófinu frá A upp í W. Nú hefur það gerst í aðeins annað skipti í sögunni að nöfnin á þeim lista hafa ekki dugað fyrir alla þá fellibyli sem safna í sig krafti og berja á náttúru, mann- og dýralífi.

Síðasti fellibylur ársins til að fá heiti upp á hefðbundna mátann var Wilfred sem greindist fyrr í dag. Ekki var langt að bíða þar til búið var að úthluta næstu fellibyljum sem byrjuðu að myndast stöfunum Alfa og Beta. Óveður er farið að magnast um 120 kílómetra vestur af Portúgal og ber það nú heitið Alfa. Hinum megin Atlantshafsins er Beta farin að blása hressilega á Mexíkóflóa og viðbúið að krafturinn eigi enn eftir að aukast.

Það hefur aðeins gerst einu sinni áður að grípa þurfti til stafa gríska stafrófsins til að nefna fellibyli. Fyrra skiptið var árið 2005 sem verður kannski helst minnst fyrir fellibylinn Katrínu sem olli stórkostlegum skemmdum í Louisiana, þar á meðal í New Orleans.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi