Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Heilbrigðisskoða kjöt í gegnum netið

Mynd með færslu
 Mynd:
Dýralæknar sinna heilbrigðisskoðun á kjöti í gegnum netið í nýju tilraunaverkefni um heimaslátrun. Í verkefninu er leitað leiða til að bændur geti selt og markaðssett kjöt sem þeir slátra heima.

35 bændur víðsvegar um landið taka þátt í tilraunaverkefni um heimaslátrun sem hefst nú í haust. Þetta er samvinnuverkefni Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Landssamtaka sauðfjárbænda og Matvælastofnunar.

Bændur hafa lengi kallað eftir breytingum á lögum um heimaslátrun sem geri þeim kleift að slátra fé heima á bæ. Nú þurfa bændur sem selja beint frá býli að fara með dýrin í sláturhús og borga heimtökugjald.

Hólmfríður Sveinsdóttir, verkefnisstjóri segir markmiðið fyrst og fremst að leita leiða sem auðvelda bændum að slátra sauðfé heima til markaðssetningar. Um leið uppfylla skilyrði regluverks um matvælaöryggi ásamt því að gæta að dýravelferð og dýraheilbrigði.

Fyrsta skref að skoða umfang heilbrigðisskoðunar

Samkvæmt reglum þarf dýralæknir að gera heilbrigðisskoðun á kjöti ætluðu til markaðssetningar og sölu. Hólmfríður segir fyrsta skrefið því að skoða umfang þessarar heilbrigðisskoðunar og hvort hún megi vera með með öðrum hætti en að fá dýralækni á staðinn enda geti það verið kostnaðarsamt fyrir bóndann. Því eigi að athuga hvort skoðunina megi framkvæma í gegnum netið. Það hafi verið gert erlendis með misjöfnum árangri og margt spili inn í eins og gæði nettengingar og myndavélar.

19 bændur fá því heimsókn frá dýralækni heim á bæ en hjá 16 bændum fer heilbrigðisskoðunin fram í gegnum netið. Hólmfríður segir skoðunina í raun alveg þá sömu, nema í gegnum myndavél. Dýralæknirinn lífsskoði lömbin og skoði afurðirnar svo að slátrun lokinni. Næstu skref verkefnisins verði ákveðin í samræmi við niðurstöður úr þessari athugun. 

Geta farið með aukaafurðir í hrægám

Fimm lömbum verður slátrað á hverjum bæ en kjötið verður ekki selt á markaði. Bændurnir sjá sjálfir um sýnatökur til örveru- og sýrustigsmælinga. Þá verður það í höndum bænda að tryggja að aukaafurðir séu meðhöndlaðar á réttan hátt. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun er bannað að urða aukaafurðir beint. Þar sem verkefnið eigi bara við um lömb geti bændur farið með aukaafurðir í hrægám, sem eigi að vera til staðar í hverju sveitarfélagi.