Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Geta nú skráð sig í sýnatöku á netinu og létt á álagi

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið upp þá nýjung að nú getur fólk skráð sig í sýnatöku vegna COVID-19 einkenna á heilsuvera.is í stað þess að hringja á heilsugæslustöðvar. Með þessu er ætlað að létta álagið á heilsugæslustöðvunum.

Agnar Darri Sverrisson, verkefnisstjóri yfir sýnatökum hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir í samtali við fréttastofu að það sé brjálað að gera og mörg hundruð á degi hverjum sem óska eftir sýnatöku. Nýja kerfið er því mikil bylting.

„Nú getur fólk skráð sig inni á heilsuverunni. Þar fyllir það út einkenni, sendir inn umsókn og svo er það læknir sem fer yfir umsóknir,“ segir Agnar Darri í samtali við fréttastofu. Kerfið fór í loftið í gær og því er ekki komin reynsla á það ennþá.

Fram kom í fréttum í gær að vegna frétta um mögulega hópsýkingu á höfuðborgarsvæðinu hefði orðið gríðarleg aukning frá fólki um að komast í sýnatöku. Agnar segir að reynt verði að taka á móti sem flestum og heilsugæslan standi vaktina, en nýja kerfið spari gríðarlegan tíma og mannskap. 

Hér að neðan má sjá hvernig hægt er að skrá sig í sýnatöku inni á Mínum síðum á heilsuvera.is.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Fyrsta skref í ferlinu. Næst á að skrá persónuupplýsingar.
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Síðasta skrefið þar sem merkja á við einkenni.