Einn landsleikur, tvö mörk

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Einn landsleikur, tvö mörk

18.09.2020 - 09:01
Sveindís Jane Jónsdóttir byrjaði landsliðsferil sinn með A-landsliði kvenna í fótbolta heldur betur með látum. Hún skoraði nefnilega tvö mörk í sínum fyrsta landsleik þegar Ísland sigraði Lettland, 9-0 í undankeppni EM á Laugardalsvelli í gærkvöld.

Sveindís er aðeins 19 ára. Hún er frá Keflavík og lék með liði Keflavíkur þar til í fyrra. Með Keflavík skoraði hún 9 mörk í 18 leikjum, þá 17 ára, þegar liðið tryggði sér sæti í efstu deild sumarið 2017. Hún lék svo í Pepsi Max deildinni með Keflavík í fyrra og skoraði þá 7 mörk í 17 leikjum. Keflavík féll hins vegar úr deildinni og hún gekk í raðir Breiðabliks.

Hjá Blikum hefur Sveindís farið á kostum það sem af er Íslandsmóti. Hún hefur skorað 12 mörk í 13 deildarleikjum fyrir Blika auk þess að skora eitt mark í tveimur leikjum í Mjólkurbikarnum. Frammistaða hennar fór ekki framhjá Jóni Þór Haukssyni landsliðsþjálfara sem valdi hana í fyrsta sinn í A-landsliðið fyrir leikina við Letta og Svía í undankeppni EM núna í september.

Það eitt að vera valinn 19 ára í A-landsliðið er mikil viðurkenning, en hún fékk hins vegar traustið strax í fyrstu tilraun með því að vera í byrjunarliðinu í leiknum við Lettland í gær. Sveindís þakkaði traustið með því að skora tvö mörk í leiknum, hennar fyrsta A-landsleik. Tölfræði hennar með yngri landsliðum Íslands er reyndar mjög góð leik. Hún skoraði til dæmis 13 mörk í 19 leikjum fyrir 19 ára landslið Íslands.