Danir herða aðgerðir eftir metfjölda smita

18.09.2020 - 12:25
epa08283060 Danish Prime Minister Mette Frederiksen holds a press briefing on the novel coronavirus Covid-19 situation, in Copenhagen, Denmark, 10 March 2020. Denmark announced on the day that it has registered 156 cases of Covid-19 infections.  EPA-EFE/LISELOTTE SABROE  DENMARK OUT
 Mynd: EPA - RÚV
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, tilkynnti um hertar sóttvarnir þar í landi á fréttamannafundi nú fyrir skömmu. Faraldurinn hefur verið á hraðri uppleið í Danmörku síðustu daga.

Í gær greindust 454 smit og hafa aldrei verið fleiri. 58 eru á sjúkrahúsi. Frederiksen segir að veiran greinist nú hjá breiðari aldurshópum en áður og í öllum héruðum landsins. 

Frá og með morgundeginum mega aðeins 50 koma saman í landinu þar sem ekki er hægt að tryggja fjarlægðarmörk, annars eru 500 manna fjöldatakmörk. Þá verður veitinga- og skemmtistöðum um allt land gert að loka klukkan tíu á kvöldin. Aðeins eru tveir dagar síðan stjórnvöld settu þær reglur á Stór-Kaupmannahafnarsvæðinu.

Nýju reglurnar taka gildi strax á hádegi á morgun og gilda til 4. október. Frederiksen hvatti dönsku þjóðina til þess að takmarka samgang sín á milli á næstunni. Þá hvatti hún landsmenn til að forðast almenningssamgöngur á háannatíma og halda sig sem mest nærri heimilum sínum. Skólar og aðrar menntastofnanir verða áfram opnar og sama gildir um tómstundastarf. 

„Ef við gerum ekkert núna eigum við á hættu að veiran verði stjórnlaus. Ef okkur tekst vel upp með þessar aðgerðir á ænstu vikum þá vonum við að hægt verði að slaka á þeim sem fyrst, í það minnsta á sumum svæðum - og vonandi um allt land,“ sagði Frederiksen.

Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra, upplýsti að af þeim 58 sem væru á sjúkrahúsi væru 14% undir þrítugt.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi