Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

6,5 milljarðar í nýja legudeild á SAk

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Gert er ráð fyrir að 6,5 milljörðum króna verði varið í framkvæmdir við byggingu nýrrar legudeildar við Sjúkrahúsið á Akureyri í fjármálaáætlun 2021-2025. Þetta kom fram í ræðu Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á ársfundi Sjúkrahússins á Akureyri í gær.

Stækkun verið lengi til skoðunar

Stækkun sjúkrahússins hefur verið í kortunum í nokkur ár. Árið 2015 var greint frá því að Kristján Þór Júlíusson þáverandi heilbrigðisráðherra hefði skipað vinnuhóp til að uppfæra og endurskoða meira en tíu ára gamlar tillögur um uppbyggingu Sjúkrahússins á Akureyri. Sá hópur komst að þeirri niðurstöðu að nýbygging væri eini raunhæfi kosturinn til að leysa húsnæðisvanda sjúkrahússins. 

„Það er ánægjulegt að segja frá því að sú fjármögnun sem gert er ráð fyrir að þurfi við til framkvæmda við nýbygginguna verður nú loks tryggð á tíma næstu fjármálaáætlunar á árunum 2021-2025," sagði Svandís í ávarpi sínu. 

Svandís stolt af ákvörðuninni

Svandís sagðist stolt af þeirri ákvörðun sem nú hefði verið tekin. „Þetta hefur verið baráttumál fyrir norðan um langt árabil og er einn af þeim köflum sem ég er hvað stoltust af í tíð þessarar ríkisstjórnar."

Nýr myndgreiningarbúnaður og sneiðmyndatæki

Við sama tilefni greindi Svandís ákvörðun um fjármögnun á myndgreiningarbúnaði við sjúkrahúsið. Segulómtæki verður uppfært og innflutt tölvusneiðmyndatæki keypt. Ljóst þykir að ný legudeild muni gjörbreyta aðstæðum sjúklinga á sjúkrahúsinu á Akureyri.