Fellibylurinn Sally gekk á land í Suðurríkjum Bandaríkjanna í dag. Fellibylurinn fer óvenjuhægt yfir.
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Alabama, Flórída og Mississippi. Storminum fylgir mikil rigning, brýr og bryggjur hafa eyðilagst í veðurhamnum, bílar oltið og bátar hafa losnað frá bryggju.
Mikil flóð ógna nú hluta Flórída og suðurhluta Alabama en víða mælist úrkoman allt að 45 sentímetrar. Íbúar á svæðinu segja rigninguna nánast vera óraunverulega, svo mikil er hún.
Lögregla í Pensacola á Flórída varar íbúa við að fara út en borgin hefur orðið illa úti af völdum Sallyjar. Ríflega hálf milljón heimila er án rafmagns í Alabama og á Flórída.
Sérfræðingar telja að það hversu hægt Sally fari yfir megi kenna loftslagsbreytingum. Rannsókn sem birtist í tímaritinu Nature fyrir tveimur árum sýnir að hraði fellibylja og hitabeltisstorma hafi lækkað um 10% á árabilinu 1949 til 2016. Það sé vegna þess að meiri úrkoma fylgi þeim á síðari árum.