Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Metfjöldi smita í Danmörku í gær

17.09.2020 - 16:54
epa08398939 A general view on The Japanese cherry trees in full bloom at The Black Square in Copenhagen, Denmark, 03 May 2020.  EPA-EFE/IDA GULDBAEK ARENTSEN  DENMARK OUT
 Mynd: EPA
453 greindust með kórónuveiruna sem veldur COVID-19 í Danmörku í gær. Aldrei hafa fleiri greinst á einum sólarhring frá því faraldurinn hófst í landinu. Alls voru 882 sýni jákvæð síðustu tvo daga samkvæmt smitsjúkdómastofnun Danmerkur, en ekki var unnt að greina frá fjölda smita í gær vegna tæknilegra örðugleika. 

Politiken greinir frá því að gripið hafi verið til harðari smitvarnarráðstafana á höfuðborgarsvæðinu vegna fjölgunar smita þar. Það sama hefur verið gert í Álaborg. Þar er aðgangur að vínveitingastöðum nú bannaður ef fólk hefur ekki sótt app í snjallsímann sinn. Þá hafa bæjaryfirvöld biðlað til ungmenna um að róa sig í skemmtanalífinu, faðmast minna og vera færri saman. 

Alls eru sextíu nú inni á sjúkrahúsi vegna COVID-19 í Danmörku, og hafa aldrei verið fleiri. Þrír þeirra eru á gjörgæsludeild að sögn danska ríkisútvarpsins
Danir verða nú einnig að láta sér það lynda að fara í sóttkví þegar þeir ferðast til Noregs, í það minnsta þeir sem koma frá Sjálandi og Norður-Jótlandi. Danir gáfu svo út uppfærðar upplýsingar um ferðalög til útlanda. Þar var Hollandi, Portúgal, Sviss og Austurríki bætt í hóp ríkja sem ekki er ráðlagt að ferðast til nema af algjörri nauðsyn. Ísland er inni á þeim lista.