
Kreppuástand á Nýja-Sjálandi
Strangt útgöngubann sem varði frá mars og til maíloka auk lokunar landamæranna hefur gríðarleg áhrif á efnahag landsins. Afleiðinganna gætir helst í smávöruverslun, samgöngum, gistingu og veitingahúsarekstri. Matar- og drykkjarframleiðendur hafa ekki orðið eins illa úti.
Meiri samdrætti var spáð á öðrum ársfjórðungi en Grant Robertson fjármálaráðherra Nýja Sjálands þakkar skjótum og hörðum viðbrögðum ríkisstjórnar Jacindu Arden það að ekki fór verr.
Stjórnarandstaðan sakar stjórnina um röng viðbrögð
Stjórnarandstaðan er á öðru máli og ber ástandið í Nýja Sjálandi saman við Ástralíu þar sem samdrátturinn var 7 af hundraði. Það megi þakka mildari viðbrögðum við faraldrinum.
Röng viðbrögð ríkisstjórnar Arden, skipulagsleysi og óraunsæi verði til þess að það taki fjárhag landsins óratíma að jafna sig. Nýsjálendingar ganga að kjörborðinu 17. október þar sem ríkisstjórn Arden sækist eftir áframhaldandi stuðningi kjósenda.
Aðalhagfræðingur Kiwi-bankans nýsjálenska, Jarrod Kerr, kveðst aldrei hafa séð annan eins samdrátt en Nýja-Sjáland gekk seinast í gegnum kreppu á árunum 2008 til 2009. Frá 2010 hefur verið stanslaus hagvöxtur í landinu.
Hann býst við allt að tíu prósenta vexti í hagkerfinu í september og þakkar það því að Nýsjálendingar hafi lagað sig að viðskiptum á tímum þar sem ekki er mögulegt að hittast augliti til auglitis.
Nýsjálendingar eru fimm milljónir, þar hafa 25 látist af völdum Covid-19. Þar í landi hefur tekist að hafa hemil á útbreiðslu veirunnar síðan í maí að frátöldu því að hún blossaði upp í Auckland í ágústmánuði.