Kemur til greina að mæla með frekari notkun gríma

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir boðaði á upplýsingafundi í dag hertar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu. Hann skilar minnisblaði til heilbrigðisráðherra síðar í dag eða á morgun. Hann segir að spjótunum verði helst beint að vínveitingastöðum. Fólk sem sæki þá eigi stóran þátt í þessari nýju bylgju. Appelsínugul viðvörun vegna kórónuveirusmita hefur verið gefin út fyrir höfuðborgarsvæðið. Það er næsthæsta viðbúnaðarstigið. Nýr veirustofn er kominn inn í landið.

Þetta var meðal þess sem kom fram á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Þórólfur upplýsti að síðustu þrjá sólarhringa hefðu 38 greinst með kórónuveirusmit og aðeins 11 af þeim hefðu verið í sóttkví. Allir nema einn voru á höfuðborgarsvæðinu.

Spjótum beint að vínveitingastöðum

Þórólfur sagði að þriðjungur þessara smita tengdist vínveitingastöðum en aðrir stofnunum eins og Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands. Engin merki væru um að smit hefðu átt sér stað innan þessara stofnana. Meðalaldur þeirra sem hefði greinst síðustu þrjá daga væri í kringum 39 ár.

Hann greindi enn fremur frá því að nýr stofn af veirunni væri kominn til landsins. Hann mætti sennilega rekja til ferðamanna sem komu í ágúst og hefðu annað hvort átt að vera í sóttkví eða einangrun. „Við erum að  fara yfir hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis þar.“ 

Þórólfur hyggst skila minnisblaði til heilbrigðisráðherra í dag eða á morgun um hertar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu. Spjótunum yrði helst beint að vínveitingastöðum. Þetta mætti rekja til þess að fólk sem sækti slíka staði ætti stóran þátt í þessari bylgju núna.

Appelsínugul viðvörun gefin út

Þá þyrfti að herða á reglum um einstaklingsbundnar sýkingavarnir og verndun viðkvæmra einstaklinga. „Ég er ekki að boða tillögur um almennt hertar aðgerðir heldur markvissari aðgerðir sem lúta að uppruna þessarar sýkingar sem við erum að fást við núna.“

Ekki fékkst gefið upp hvort þetta væri einn staður eða fleiri en Víðir sagði að unnið væri að smitrakningu í samvinnu við rekstraraðila. Þá kom fram á fundinum að gefin hefði verið út appelsínugul viðvörun fyrir höfuðborgarsvæðið vegna kórónuveirusmita. Það er næsthæsta viðbúnaðarstigið. Þórólfur sagði að það kæmi til greina að loka hreinlega vínveitingastöðum um helgina, skoðun sem Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur viðrað.

Kemur til greina að mæla með frekari notkun gríma

Þórólfur vildi þó ekki vera jafn svartsýnn og Kári um hvort þessi bylgja yrði eins slæm og sú í ágúst og jafnvel í vor. „Þetta skýrist allt á næstu dögum.“

Hann sagði koma til greina að mæla með frekari grímunotkun en bara þar sem loftgæði væru slæm og ekki væri hægt að tryggja eins metra nándarmörk. Þetta gæti átt við leikhús, tónleikastaði og skóla. „En við verðum bara að bíða eftir næstu auglýsingu.“ Hann segir að það yrði meiri háttar áfall ef það þyrfti að grípa til lokana á einhverri starfsemi en það komi til greina ef það verður einhver veldisvöxtur á faraldrinum.

Þórólfur áréttaði jafnframt að engar vísbendingar væru um að veiran væri eitthvað vægari nú en áður. Hann hefði leitað eftir upplýsingum hjá WHO um það og engin staðfesting á slíku hefði borist. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi