Heimaræktaður kúrbítur reyndist eitraður

Mynd: Elín Björk Jóhannsdóttir / Aðsend

Heimaræktaður kúrbítur reyndist eitraður

17.09.2020 - 07:00

Höfundar

Elín Björk Jóhannsdóttir, bókmenntafræðingur, sinnir garðyrkju og grænmetisræktun í hjáverkum. Hún og eiginmaður hennar rækta ýmsar tegundir af grænmeti til eigin nota. Í sumar prófuðu þau sig áfram með kúrbít og grasker og sú tilraunamennska hafði nokkuð ævintýralegar afleiðingar.

Kúrbítsplöntuna ræktuðu þau í svokölluðu hraukabeði. „Þar sem maður grefur smá holu, setur drumba og annað niðurbrjótanlegt efni, eins og skít, og svo mold ofan á. Og setur svo plönturnar efst,“ útskýrir hún. „Og það sem gerist er að það hefst niðurbrot á drumbunum og efninu sem er fyrir neðan moldina, og það á að búa til hita, sem er mjög æskilegt þegar maður er með plöntur sem vilja ekki endilega vera úti, eins og kúrbíturinn og graskerið.“

Mynd með færslu
 Mynd: Elín Björk Jóhannsdóttir - Aðsend
Kúrbíturinn dafnaði vel í hraukabeðinu og ræktendurnir biðu spenntir eftir að geta gætt sér á góðgætinu.

Elín Björk segir þetta hafa tekist frekar vel og uppskeran af kúrbít var ágæt. Fyrsti kúrbíturinn sem óx var langstærstur en gleðin yfir góðri uppskeru var skammvinn. „Hann olli matareitrun hjá okkur hjónum, þegar við fórum í tjaldútilegu. Það var ansi ævintýralegt,“ rifjar hún upp. „Þá komumst við sem sagt að því að ef kúrbítsplöntur eða aðrar plöntur af þessari tegund, eins og grasker og gúrkur, fá sjokk, þá geta þær farið í svona varnarviðbragð og offramleitt ákveðið efni sem er eitrað,“ segir hún. 

Undarlegt beiskt bragð einkenndi matseldina. „Við höfðum grillað kúrbítinn og ég var eitthvað að reyna að smakka til maríneringuna sem hann hafði verið í, sem var orðin alveg óæt, og það var nóg til þess að við fengum bæði matareitrun,“ segir hún og bætir við að maðurinn hennar hafi einungis smakkað einn bita af kúrbítnum. 

Þau vissu ekki strax að kúrbítnum væri um að kenna. „Það var ekki fyrr en við smökkuðum næsta eitraða kúrbít, að við föttuðum að þetta var sökudólgurinn. Við héldum að þetta hafi verið eldunarolía, eða eitthvað álíka. Þetta var mjög dularfullt mál.“

Mynd með færslu
 Mynd: Elín Björk Jóhannsdóttir - Aðsend
Tjaldútilega sumarins hafin hjá þeim hjónum. Þar átti að gæða sér á fyrsta heimaræktaða kúrbítnum, sem lá í maríneringu í grænu skálinni.

Beiska bragðið leyndi sér ekki þegar næsti kúrbítur var smakkaður. Elín lýsir því sem beiskasta bragði sem hægt sé að ímynda sér. „En núna höfum við það fyrir reglu þegar við eldum kúrbít þá skerum við neðan af honum og sleikjum bitann. Ef hann er beiskur þá borðar maður ekki kúrbítinn,“ segir Elín Björk.

Eftir að hafa leitað upplýsinga á netinu komust þau hjónin að því að þetta er frekar sjaldgæft. „En þegar við fórum að gúggla þá sáum við einhver mjög ýkt dæmi um fólk sem hafði farið ansi illa út úr þessu,“ segir hún. „En þetta gerist almennt ekki í venjulegri ræktun, þannig að það er ekki ástæða til að vera mjög stressaður, nema maður fari út í sína eigin ræktun, þá þarf maður að passa upp á þetta.“ 

Elín Björk segir að sjokkið sem olli eitruninni í kúrbítsplöntunni geti verið vegna kulda, þurrks eða skordýra. Þau viti samt ekki hvað angraði þeirra plöntu. „Nei, þetta er mjög sérstakt. Af því þetta var bara ein af þrem plöntum. Og sem betur fer föttuðum við það, áður en við tókum allar plönturnar og hentum þeim,“ segir hún. „En þá var allt í lagi með tvær og þær héldu síðan áfram að gefa,“ segir Elín sem uppskar síðasta kúrbít sumarsins fyrir stuttu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Elín Björk Jóhannsdóttir - Aðsend
Elín hefur stundað garðyrkju og grænmetisræktun frá unga aldri og áhuginn fer bara vaxandi, þrátt fyrir ævintýri sumarsins. Hér fer hún í gegnum hluta af berjauppskerunni og undirbýr sultugerð.

Tengdar fréttir

Menntamál

Áhersla á að bæta innviði í garðyrkju í LBHÍ

Menntamál

Vilja setja á fót nýtt garðyrkjunám á Íslandi

Íslenskir garðyrkjubændur vilja efla útirækt

Kúrbítsklattar með myntu