Fóru hundrað ferðir í Örkinni hans Ómars

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV

Fóru hundrað ferðir í Örkinni hans Ómars

17.09.2020 - 09:32

Höfundar

„Nú er tíu ára afmæli dags íslenskrar náttúru. Mér finnst það vera aðalafmæli dagsins,“ sagði Ómar Ragnarsson í viðtali við Mannlega þáttinn í gær þegar hann átti 80 ára afmæli. „Það hefur aldrei verið meira að gera hjá mér eins og eftir að ég hætti að vinna.“

Afmælisbarnið sagði sjálfgefið að ekki yrði haldið upp á tímamótin með veislu, en hann býr í blokk fyrir ellilífeyrisþega sem eru í miklum áhættuhópi vegna COVID-19. „Það er ágætt, það voru svo mikil læti fyrir tíu árum og í sextugsafmælinu.“ Sigurður Grímsson kvikmyndagerðarmaður gerði heimildamyndina Ómar sem sýnd var á RÚV í gær en hún fjallar um baráttu Ómars Ragnarssonar gegn Kárahnjúkavirkjun. „Það var ekkert planað að gera heimildamynd, við bara fórum austur að Kárahnjúkum til að gera lítið innslag fyrir þýska sjónvarpið,“ segir Sigurður. „En þetta verkefni heltók okkur þegar við sáum hvað mikið var í húfi. Þetta var hulið sjónum fólks nema þarna var einn maður með flugvél að sýna fólki þessa stórkostlegu náttúru.“ Eftir að hafa klárað innslagið áttu þau mikið efni afgangs sem dregið var fram nýlega og úr varð þessi mynd.

„Maður finnur svo mikið til smæðar sinnar, maður er eins og korn í samanburði við málefnið sem á eftir að snerta milljónir Íslendinga um alla framtíð,“ segir Ómar. Mikið vatn hefur runnið til sjávar og í virkjunarlón síðan myndin var tekin og viðhorf til náttúruverndar breyst mikið. Heldur Ómar að framkvæmd eins og Kárahnjúkavirkjun gæti orðið í nútímanum? „Það er erfitt að svara þessu. Maður sér núna óveðursskýin hrannast upp, þá í nafni kolefnisbardaga sé krafa á að virkja allt sem eftir er. Það er erfiðara að standa á móti því.“

Ómar sýndi ekki aðeins almenningi landið sem átti eftir að fara undir vatn heldur flaug líka með stjórnmálamenn, þar á meðal Geir H. Haarde sem þá var forsætisráðherra, Þorgerði Katrínu varaformann Sjálfstæðisflokksins og Guðlaug Þór Þórðarson formann umhverfisnefndar. „Það voru 42 þingmenn sem samþykktu þetta án þess að hafa séð hvað þau voru að eyðileggja. Ég var búinn að bjóða öllum þingmönnum í Austurbæjarbíó á frumsýningu á myndinni Á meðan land byggist. Það kom enginn af þeim sem ákváðu þetta.“

Einu sér hann eftir þegar hann horfir á myndina nú. „Að hafa ekki hamrað meira á því að þetta var mesta gróðureyðing í einu vetfangi sem hefur verið framkvæmd á Íslandi. Þetta voru 40 ferkílómetrar af best gróna landinu á hálendi Íslands. En það var alltaf bara talað um urð og grjót.“ Í myndinni er líka siglt á því sem Ómar kallar örkina sína. „Það er gríðarlegt efni til úr þeim 100 ferðum sem ég hef farið á bátnum úr Reykjavík.“ Sigurður segir að myndin hefði líklega aldrei orðið ef Covid hefði ekki blossað upp. „Við höfðum verið önnum kafin við aðra hluti. En konan mín Angelika Andrees settist niður í nokkrar vikur með allt þetta efni og fann í því söguna. Það er nú eiginlega galdurinn við svona mynd.“

Sigurður og Angelika sigldu mikið með Ómari í gegnum hin ýmsu gljúfur þegar vatnið var byrjað að rísa vegna virkjunarinnar. „Ég var allt í einu orðinn stýrimaður á Örkinni í grenjandi rigningu meðan Ómar tók við myndavélinni. Þetta var mjög skemmtilegur tími.“ Ómar sagði að Sigurður væri að vestan og þess vegna færi honum vel að stýra bátnum. „Ég var skíthræddur og það kemur fram í myndinni, ég segi „Sigurður, ekki lengra!“.“ Örkin hefur nú legið í dvala um langa hríð en Ómar hefur komið henni í fóstur hjá góðum manni sem ætlar að gera úr henni landróðrabát. Ómar segist byrja að líta lífshlaupið öðrum augum eftir því sem hann eldist. „Ég byrja stundum þegar ég hitti gamla fólkið: „Því lengur sem maður lifir því meiri líkur á að maður drepist.“

Gunnnar Hansson og Guðrún Gunnarssdóttir ræddu við Ómar Ragnarsson og Sigurður Grímsson í Mannlega þættinum. Heimildarmyndin Ómar er aðgengileg í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Umhverfismál

„Þakkarvert að hafa lifað svona lengi“

Tónlist

Ómar áttræður – sjáðu elsta viðtalið við hann á RÚV

Menningarefni

„Þeir sem mest þrýsta á mig að hætta eru í felum“