Deila um minnismerki vegna Úteyjar fyrir dómi

17.09.2020 - 15:01
Erlent · hryðjuverk · Noregur · Spegillinn · Útey · Evrópa
Í minningarathöfn í Útey árið 2013. - Mynd: EPA / EPA
Bráðum áratug eftir ódæðsiverkin á Útey og í miðborg Óslóar er enn rifist um hvort og hvar minnismerki um hin látnu eigi að rísa. Samingaviðræður, dómsmál og endurhönnun merkisins hafa aðeins orðið til að fresta framkvæmdum. Og nú í vikunni var deilan enn tekin til dóms.

Réttur er settur eina ferðina enn og nú á að fá úr því skorið hvort framkvæmdum verður frestað þar til dómsmál um sjálfa framkvæmdina kemur fyrir rétt í lok nóvember. Þetta er spurningin um hvort, hvar og hvernig minnismerki um fórnarlömb hryðjuverka Anders Behing Breivik geti risið. 22. Júlí næsta sumar verða liðin 10 ár frá ódæðisverkunum og þá á – samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar – að vígja merkið.

Kostnaður margfaldast og margra ára tafir

Vígslan er nú þegar orðin sex árum á eftir áætlun og í stað þess að merkið kostaði 30 milljónir hefur kostnaður tífaldast vegna málaferla og endurhönnunar. Og lokatölur liggja ekki fyrir því margir snúningar í dómssölum virðast eftir áður en yfir líkur.

Sumarbústaðeigendur vilja ekki vera stöðugt minntir á hörmungar

Deilan snýst nákvæmlega um að 20 eigendur sumarbústaða nærri þeim stað sem ferjan til Úteyjar leggur að landi vilja ekki eins og þeir segja „eiga heima í minnismerki“. Vilja ekki staðurinn verði fjölsóttur viðkomustaður þeirra sem vilja minnast fórnarlamba hryðjuverkanna. Vilja ekki þurfa að rifja upp þessa hörmungaratburði í hvert sinn sem þeir líta út um gluggann.

77 súlur eiga að rísa

Jafnframt liggur fyrir að aðrir eigendur bústaða á svæðinu hafa ekki mótmælt minnismerkinu og eru ekki með í dómsmálum til að fá byggingu þess stöðvaða. Því er einnig innbyrðis ósætti meðal nágrannanna um framkvæmdina. En bæði ríkisstjórn og Ungliðahreyfing Verkamannaflokksins – en ódæði Breivíks beindist bæði gegn ríkisvaldinu og ungliðunum – eru staðráðin í að láta merkið rísa. Þarna á að minnast allra 77 sem létu lífið á eyjunni og við stjórnarráðsbygginguna í Osló. Þetta er gert með því að reisa 77 bronssúlur.

Kært vegna skipulagsgalla

Upphaflega átti allt að vera klárt fyrir sex árum. Þá var talað um að skera djúpa rauf í klett þarna á staðnum. Eigendur bústaðanna sættu sig ekki við það og gengið var til samninga um nýja hönnun. Þá kom hugmyndin um að reisa bronssúlurnar, sem er látlausara minnismerki. En einnig því var hafnað og eftir það hefur gengið á dómsmálum sem enn sér ekki fyrir endan á. Framkvæmdir áttu að hefjast í júní í sumar en var frestað vegna kæru. Kærunni var hafnað og þá var hafist handa í ágúst. Enn er búið að kæra vegna skipulagsgalla en það mál kemur ekki fyrir dóm fyrr en í nóvember. Því er nú beðið um lögbann á framkvæmdirnar þar til dómsmálið verður tekið fyrir.

Andstæðingar lýsa líkamlegu einkennum vegna álags

Andstæðingar merkisins á þessum stað hafa fengið vottorð sálfræðinga um að þeir þoli ekki framkvæmdina. Sumir þeirra hafa lýst líkamlegum einkennum vegna álagsins sem þessu fylgir. Það er ósjálfráður skjálfti í höndum og þroti í andliti auk svefntruflana. Núna verður héraðsrétturinn á Hringaríki að taka afstöðu til þess hvort þetta er næg ástæða til að stöðva framkvæmdir. Fylgjendur þess að merkið verði reist á þessum stað segja að bæði aðstandendur þeirra sem létu lífið og þjóðin öll verði að minnast þess sem gerðist. Enginn staður sé betur til þessa fallinn en einmitt bryggjan þar sem fólk úr eyjunni kom að landi. 

Andstæðingar merkisins segja það öllum fyrir bestu að gleyma þessum hörmungum sem líka reyndu mjög á fólkið í sumarbústöðunum. Það tók líka þátt í björgun þeirra sem lifðu af. Til vara megi reisa svona minnismerki á öðrum stað þar sem fólk geti safnast saman án þess að trufla eigendur sumarbústaðanna.

 

Gísli Kristjánsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi