Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ákærður fyrir liðveislu við íslamska ríkið

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Bandarískur ríkisborgari hefur verið ákærður í Washington fyrir að hafa gengið til liðs við samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki í Sýrlandi.

Í ákærunni kemur fram að Lirim Sylejmani, sem fæddist í Kósóvó, eigi meðal annars að hafa fengið herþjálfun hjá samtökunum á árunum 2015 til 2019.

„Hinn ákærði er ríkisborgari sem yfirgaf landið sem tók við honum, til þess að slást í hóp með hryðjuverkasamtökunum ISIS í Sýrlandi,“ segir Michael Sherwin settur alríkissaksóknari í Washington og bætir við að nú þurfi Sylejmani að standa fyrir máli sínu í réttarsal.

Lýðræðissveitir Sýrlands (SDF) handtóku Sylejmani á síðasta ári. Þær eru studdar af Bandaríkjamönnum. Bretar og Frakkar hafa bannað þeim ríkisborgurum að snúa heim sem gengið hafa til liðs við ISIS. Bresk stjórnvöld hafa jafnframt fellt ríkisborgarétt allnokkurra úr gildi vegna tengsla við samtökin.

Bandaríkjastjórn telur það ekki vera góða lausn, hvorki fyrir vesturlönd né miðausturlönd. Mesta hættan sé sú að slíkt fólk snúi aftur á vígvöllinn sem henti illa í baráttunni við hryðjuverk í heiminum.

Í maí síðastliðnum var talið að um tvö þúsund vígamenn ISIS væru í haldi í Sýrlandi og um þúsund í Írak. Allmargir þeirra eru franskir, þýskir og breskir ríkisborgarar.