Trump fullyrðir að Biden taki andlega örvandi lyf

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett RÚV - AP/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti fullyrðir að Joe Biden taki lyf til að bæta frammistöðu sína í kappræðum.

Forsetinn hefur um nokkurra mánaða skeið fullyrt að andstæðingur hans eigi við andleg vandamál að stríða. Hann segir ómögulegt að Bandaríkjamenn hafi slíkan forseta.

Skoðanakannanir sýna að Trump hafi allnokkuð minna fylgi en Biden. Bandaríkjaforseti segir í viðtali við Fox fréttastöðina að honum hafi þótt „eitthvað undarlegt“ við hve Biden tók miklum framförum í kappræðum meðan á forvali Demókrataflokksins stóð.

Trump segir Biden framan af hafa verið hræðilega vanmáttugan en hann hafi bara verið orðinn í lagi síðar, þegar hann atti kappi við Bernie Sanders einan. Forsetinn sagðist fyrst ekki vilja kveða úr um hver væri ástæða þessara framfara Bidens en skömmu síðar bætti hann við að Biden væri að innbyrða eitthvað sem yki skýrleika hans.

Trump ítrekaði kröfu sína um að Biden tæki lyfjapróf í aðdraganda fyrstu kappræðna þeirra sem áætlaðar eru 29. september næstkomandi. Hann sagðist vera til í að gera slíkt hið sama.

Biden sagðist hlakka til að takast á við Trump í kappræðum, en að forsetinn væri kjáni og ummæli hans bjánaleg.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi