Sunnan hvassviðri eða stormur í dag

16.09.2020 - 06:27
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Vaxandi sunnanátt er á landinu í dag fram til miðnættis, 13 til 20 metrar á sekúndu vestantil seinnipartinn, annars 8 til 15. Rigning sunnan- og vestanlands, en þykknar upp með dálítilli vætu norðaustantil síðdegis. Gul veðurviðvörun er í gildi á Faxaflóa, Vestfjörðum, Breiðafirði og Miðhálendinu í dag og fram á kvöld.

Þetta kemur fram í textaspá veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Snýst í hægari suðvestanátt seint í kvöld og í nótt, fyrst vestast. Suðvestan 5 til 13 á morgun, en hvassara um tíma suðaustanlands. Skúrir á vesturhelmingi landsins, en að mestu léttskýjað austantil. Hiti 6 til 12 stig að deginum.

Veðurhorfur á höfuðborgarsvæðinu:

Vaxandi suðaustanátt, 8 til 15 metrar á sekúndu eftir hádegi og rigning með köflum, en úrkomumeira í kvöld. Snýst í suðvestan 5 til 10 með skúrum í nótt. Hiti 7 til 11 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga: 

Á fimmtudag:
Suðvestan 5-13 m/s og rigning eða skúrir, en þurrt og bjart að mestu austantil á landinu. Hiti 7 til 13 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á föstudag:
Suðvestlæg átt, 8-15 m/s og smáskúrir vestantil, en hægari vindur og léttskýjað um landið austanvert. Hiti breytist lítið.

Á laugardag:
Suðvestan 10-18 m/s. Rigning með köflum sunnan- og vestanlands, en hægari vindur, bjartviðri og úrkomulítið norðaustan- og austanlands. Áfram milt í veðri.

Á sunnudag:
Vaxandi sunnanátt með rigningu, víða allhvass vindur um kvöldið. Hiti 6 til 10 stig.

Á mánudag:
Líklega hvöss suðvestlæg eða breytileg átt og rigning um allt land. Útlit fyrir norðlæga átt og slyddu eða snjókomu norðvestantil um kvöldið. Kólnandi veður.

Á þriðjudag (haustjafndægur):
Útlit fyrir stífa norðlæga átt með slyddu eða snjókomu norðantil, en þurrt að kalla sunnanlands.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi