Reynir að draga úr loforðum Trumps um bóluefni

epa08673993 Robert R. Redfield, Director for Centers for Disease Control and Prevention, speaks during the Senate Appropriations subcommittee hearing 'Review of Coronavirus Response Efforts', on Capitol Hill in Washington, DC, USA, on 16 September 2020.  EPA-EFE/Anna Moneymaker / POOL
 Mynd: EPA-EFE - NEW YORK TIMES POOL
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir forstjóra Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna hafa ruglast í ríminu þegar hann greindi þingnefnd frá því í dag að bóluefni við kórónuveirunni yrði ekki aðgengilegt fyrir almenning fyrr en eftir 6 til 9 mánuði. Sjálfur telur forsetinn að bóluefnið verði komið eftir 4 til 8 vikur. Joe Biden forsetaefni Demókrata, segist treysta bóluefnum og vísindamönnum en ekki Trump.

Kórónuveiran og viðbrögð yfirvalda við faraldrinum virðast ætla að verða eitt helsta kosningamálið í forsetakosningunum vestanhafs.  Þar standa öll spjót á forsetann.

Hið virta vísindatímarit Scientific American sagði til að mynda í nýlegum leiðara að gögnin og vísindin sýndu að Trump hefði skaðað Bandaríkin og bandaríska þjóð. Skelfilegasta dæmið væru óheiðarleg og klunnaleg viðbrögð hans við COVID-19

Trump reynir nú að snúa vörn í sókn með því að lofa bóluefni við veirunni á næstu vikum.

Hann lýsti því í yfir í tveimur sjónvarpsþáttum í gær að bóluefni yrði tilbúið fyrir forsetakosningarnar. Í þætti á ABC sagði hann að bóluefnið gæti verið komið á markað eftir 3 vikur. Aðeins nokkrum klukkustundum áður hafði hann sagt í viðtali við spjallþáttinn Fox & Friends að bóluefnið væri væntanlegt eftir 4 til 8 vikur.

Robert Redfield, yfirmaður sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna, dró úr þessum yfirlýsingum forsetans þegar hann kom fyrir þingnefnd í dag. Hann sagði að bóluefni fyrir almenning yrði í fyrsta lagi tilbúið eftir 6 til 9 mánuði.  Mögulegt væri að einhverjir fengju bóluefni fyrr en því yrði þá forgangsraðað. 

Hann sagði mikilvægustu vörnina gegn farsóttinni vera grímur.  „Ef bóluefnið myndar ekki mótefni hjá viðkomandi þá er það gagnslaust og verndar hann ekki. Það gerir gríman hins vegar.“

Trump var  spurður út í ummæli Redfields á blaðamannafundi í kvöld. Þar sagði hann forstjórann hafa gert mistök þegar hann lét þessi ummæli falla. „Hann er með rangar upplýsingar. Hann hefur ruglast eitthvað í ríminu.“

Joe Biden, forsetaefni Demókrata, hefur gagnrýnt orðræðu Trumps um bóluefni og fordæmt tilraunir hans til að setja pólitískan þrýsting á bóluefnaframleiðendur.

Biden segir síka framleiðsla eiga að byggjast á vísindum og öryggi en ekki stjórnmálum. „Ég skal vera skýr; ég treysti bóluefnum og ég treysti vísindamönnum. En ég treysti ekki Donald Trump.“ Ummæli forsetans á í kvöld hefðu styrkt þá skoðun hans.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi