Ómar áttræður – sjáðu elsta viðtalið við hann á RÚV

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ómar áttræður – sjáðu elsta viðtalið við hann á RÚV

16.09.2020 - 10:12

Höfundar

Ómar Ragnarsson er áttræður í dag. Ómar hefur skemmt landsmönnum og frætt þá um eigið land áratugum saman og sagt hefur verið að í honum takist á margir menn; fréttamaðurinn, flugmaðurinn, umhverfisverndarsinninn, stjórnmálamaðurinn, íþróttamaðurinn, tónlistarmaðurinn og rithöfundurinn.

Ómar hóf að skemmta fólki aðeins 10 ára gamall að eigin sögn og hefur því sungið og sprellað sig inn í hjörtu fólks í eina sjö áratugi.

Í elsta skráða útvarpsviðtalinu við hann í safni RÚV, sem tekið var þegar Ómar var í sjötta bekk í Menntaskólanum í Reykjavík árið 1959, sýnir hann kunnuglega takta; les háðuglega mannlýsingu um sjálfan sig og flytur lög og kvæði eins og honum einum er lagið. Viðtalið tók Guðrún Helgadóttir.

Mynd: cc / cc

Elsta skráða upptakan með Ómari úr safni sjónvarpsins er af viðtali sem tekið var við hann í desember 1966, nokkrum mánuðum eftir að sjónvarpsútsendingar hófust á Íslandi. Þá var hann á leið til Finnlands til að taka þátt í samnorrænum skemmtiþætti.

Magnús Bjarnfreðsson ræddi við Ómar þar sem hann var staddur á flugvelli ásamt undirleikara sínum Hauki Heiðari. Ómar sagðist hlakka til að koma fram fyrir stærsta áhorfendahóp á ferlinum en játaði að tilhlökkunin væri kvíðablandin. „Þetta eru að minnsta kosti mikil viðbrigði frá því síðasta sem við skemmtum, fyrir nokkrum dögum; þá vorum við beðnir um að skemmta þrettán manns.“

Mynd: cc / cc

Nokkrum árum síðar var Ómar orðinn tíður gestur í sjónvarpinu auk þess sem til hans heyrðist reglulega í útvarpi. Árið 1969 hóf hann þar störf sem íþróttafréttamaður í afleysingum og ekki leið á löngu áður en hann hóf að gera mannlífsþætti fyrir sjónvarp.

Afmælisbarnið verður áberandi á dagskrá RÚV í tilefni dagsins. Í kvöld verður sýndur nýr heimildarþáttur um hann, með áherslu á náttúruverndarbaráttu hans, og yfir daginn verður hægt að sjá ýmsa þætti sem hann hefur stýrt og komið fram í. Í spilara RÚV verður hægt að sækja hina ýmsu þætti með Ómari.