Gul sóttvarnarviðvörun vegna fjölda smita

16.09.2020 - 16:14
Frá upplýsingafundi Almannavarna 12. ágúst 2020
 Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ� - RÚV
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segist ekki búast við að aðgerðir innanlands verði hertar einungis vegna þess að þrettán smituðust innanlands í gær, en af þeim var aðeins einn í sóttkví. „Við höfum ekki tekið ákvörðun um það og ég á ekki von á því. Það er allavega ekki bara byggt á þessu og við þurfum að fá meiri upplýsingar,“ segir Víðir.

Litaviðvörun tvö af fjórum

Almannavarnir ætla að taka upp litakóðunarkerfi, til að upplýsa almenning um smithættu og sóttvarnir á einstaka stöðum og landsvæðum, sem svipar til veðurviðvörunarkerfis Veðurstofunnar. Litirnir grár, gulur, appelsínugulur og rauður skilgreina þannig alvarleika ástands og sýna líkur og áhrif á samfélagið hverju sinni. 

Víðir segir að fjöldi smita í dag gefi til kynna að það sé komin gul viðvörun. „Við höfum verið að tala um litakerfi. Ef við værum komin með það í gagnið þá myndum við væntanlega horfa á það að nú kæmi fram gul viðvörun. Það er litaviðvörun númer tvö af fjórum,“ segir Víðir. 

Fólk mæti veikt í vinnu

Víðir sagði í hádegisfréttum að smitrakning vegna nýju smitanna gangi erfiðlega. „Þetta er fólk á öllum aldri með mismunandi bakgrunna á mismunandi stöðum. Sumir mikið á ferðinni aðrir ekki. Það eru ekki heldur miklar tengingar innan þessa þrettán manna hóps.“

Öll smitin eru á höfuðborgarsvæðinu. „Það eru nokkrir sem hafa verið með einkenni í nokkurn tíma. Einhverjir farið í vinnu með einkenni. Það er sérstakt áhyggjuefni að horfa til þess að leiðbeiningar um að fólk með einkenni sé heima, hafi lágan þröskuld á sínum einkennum og taki ekki sénsa, eru ekki að skila sér nógu sterkt.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi