Segir löngu tímabært að breyta kosningalögum

15.09.2020 - 13:00
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis segir löngu tímabært að breyta kosningalögum og bindur vonir við að Alþingi nái að afgreiða frumvarp þess efnis á komandi þingi.

 

Starfshópur um endurskoðun kosningalaga skilaði tillögum í síðustu viku og málið var rætt á fundi forsætisnefndar Alþingis í gær. Tillögurnar eru margþættar og miða meðal annars að því að einfalda regluverk og auka skilvirkni.

Starfhópurinn leggur meðal annars til að hægt verði að hefja talningu atkvæða eftir framboðslistum áður en kjörfundi lýkur. Núna er einungis heimilt að flokka atkvæði og undirbúa talningu.

Einnig er lagt til að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefjist ekki fyrr en öll framboð séu komin fram. Kjósandi geti eingöngu greitt atkvæði einu sinni í hverjum kosningum; annað hvort utan kjörfundar eða á kjörfundi. Í dag má kjósa utan kjörfundar og svo á aftur á kjördag sem þá ógildir fyrra atkvæði.

Kosningaréttur þeirra sem búa erlendis verður rýmkaður úr átta árum í sextán eftir að lögheimili hefur verið flutt og þá er einnig lagt til að skoðaður verði sá möguleiki að atkvæðagreiðsla erlendis verði rafræn.

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis bindur vonir við að hægt verði að afgreiða frumvarpið á komandi þingi.

„Já, ég bind að sjálfsögðu vonir við það. Þetta er mjög metnaðarfull vinna og löngu löngu tímabær heildarendurskoðun á kosningalögum. Sprettur af því að eftir marga undangengnar almennar kosningar hefur landskjörstjórn sent ábendingar um hluti sem þyrfti að lagfæra og menn hafa gert nokkur tilhlaup hér á umliðnum árum en það varð úti í snemmboðuðum alþingiskosningum eða af einhverjum öðrum ástæðum. Nú er þetta loksins í höfn, það er heildarendurskoðun allra kosningalaga sameinuð í eitt frumvarp og næsta skref eftir að það hefur verið kynnt í forsætisnefnd er að leita hófanna um flutning á því máli,“ segir Steingrímur. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi