Leituðu eiginmanns Carole Baskin í auglýsingahléi

Mynd með færslu
 Mynd: Carole Baskin

Leituðu eiginmanns Carole Baskin í auglýsingahléi

15.09.2020 - 11:56
Kattakonan Carole Baskin, sem flestir kannast við úr heimildarþáttunum Tiger King, steig sinn fyrsta dans í raunveruleikaþáttinum Dancing with the Stars í gærkvöldi. Í auglýsingahléi eftir dansinn birtist auglýsing þar sem stjúpdætur Baskin óskuðu eftir aðstoð almennings við að finna fyrrverandi mann hennar sem þær grunar að hún hafi komið fyrir kattarnef.

Það kom ekki á óvart að stórkattaeigandinn Carole Baskin bæri kattarklæði. Hún steig spænskan kattardans á sviðinu ásamt dansaranum Pasha Pashkov við lagið Eye of the Tiger með rokkbandinu Survivor.

Það vakti hins vegar mikla athygli að í auglýsingahléi eftir dansinn birtist auglýsing þar sem dætur Dons Lewis, sem er fyrrverandi eiginmaður Carole Baskin, óskuðu eftir hjálp til að finna föður sinn sem hvarf árið 1997.  Í auglýsingunni, sem sjá má hér fyrir neðan, leita fjölskylda Dons Lewis og lögfræðingur þeirra upplýsinga um milljónamæringinn sem hvarf.

Margir telja að Carole Baskin hafi haft eitthvað með andlát Lewis að gera. Í auglýsingunni segiar Donna, elsta dóttir Lewis, verða að fá að vita hvað varð um föður þeirra. Í auglýsingunni bjóða dætur Dons Lewis 100.000 bandaríkjadali fyrir upplýsingar um hvarfið.