Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Heillegt hræ útdauðs bjarnar fannst í Síberíu

15.09.2020 - 04:54
Mynd með færslu
 Mynd: AP
Hirðingjar á Lyakhovskyðeyjum í Rússlandi fundu heillegt hræ útdauðrar bjarnartegundar. Hræið er einstaklega heillegt, enda lengst af legið í frosinni túndru. Túndran hefur þiðnað síðustu ár og því fannst hræið. Tennur bjarnarins eru nánast heilar sem og trýnið.

Hingað til hafa vísindamenn aðeins fundið bein tegundarinnar. Vísindamenn við ríkisháskólann í Yakutsk segja hræfundinn sögulegan. Þetta sé í fyrsta sinn sem heilt hræ af þessari tegund finnst með mjúkvefjum. Öll innri líffæri séu einnig á sínum stað.

Samkvæmt frumrannsókn á hræinu var björninn lifandi fyrir um 22 þúsund til 39.500 árum síðan. Tegundin dó út fyrir um 15 þúsund árum. Gera þarf geislakola-aldursgreiningu til að finna nákvæmari aldur bjarnarins.

Síðustu ár hefur fjöldi hræa uppgötvast í þiðnandi freðmýrum Síberíu í Rússlandi. Þar á meðal eru loðfílar, loðnashyrningar, ísaldarhestar, hvolpar og hellisljónaungar. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV