Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Háskólanám á Austurlandi hefjist í nýju útibúi 2022

15.09.2020 - 12:56
Mynd með færslu
 Mynd: Reyðarfjörður - RÚV/Rúnar Snær Reynisson
Austurbrú og menntamálaráðuneytið undirrituðu samstarfssamning á Reyðarfirði um helgina um stofnun háskólaútibús og kennslu á háskólastigi á Austurlandi. Ráðgert er að frumgreinadeild taki til starfa haustið 2021. Einar Már Sigurðarson, formaður stjórnar Austurbrúar, segir stefnt að því að hefja kennslu í hagnýtri iðnaðartæknifræði haustið 2022. Menntamálaráðuneytið leggi til verkefnisstjóra og fulltrúa í stýrihóp.

Þetta yrði í fyrsta sinn sem nám í tæknifræði á háskólastigi færi fram utan höfuðborgarsvæðisins.

Samningurinn er svohljóðandi:

„Tilgangur verkefnisins er áframhaldandi uppbygging þekkingarsamfélags á Austurlandi. Til verkefnisins var stofnað fyrir rúmum tveimur árum að frumkvæði samstarfsaðila á Austurlandi [1] á grundvelli framtíðarsýnar um að skapa virkt háskólasamfélag á Austurlandi.  Öflug háskólavirkni mun gera Austurland að eftirsóttari búsetukosti fyrir ungt fólk og er til þess fallin að auka tækifæri til nýsköpunar og samfélagsþróunar á Austurlandi.  

Markmið 

Markmið samstarfsins er að koma á virku háskólasamfélagi á Austurlandi með stofnun háskólaútibús með kennslu á háskólastigi. Við skipulagningu háskólaútibúsins verði sérstaklega horft til þarfa og styrkleika atvinnulífs á Austurlandi. Stefnt verði að því að kennsla í hagnýtri iðnaðartæknifræði hefjist á Austurlandi haustið 2022 og að frumgreinadeild taki til starfa haustið 2021. 

Verkefnastjórn 

Til liðsauka við stýrihóp fyrir skipulag og framkvæmd verkefnisins tekur fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytis sæti í stýrihópnum í umboði ráðherra menntamála ásamt rektor/um þeirra háskóla sem koma til með að taka þátt í verkefninu, í samráði við ráðuneytið. Í stýrihópnum eru að auki fulltrúar samstarfsaðila1 sem leggja fjármagn til verkefnisins.  

Hlutverk stýrihópsins er að vinna að markmiðum samstarfssamningsins og leita lausna á þeim hindrunum er upp munu koma í ferlinu. Austurbrú hýsir verkefnið á grundvelli stefnumörkunar stýrihópsins1 og ráðuneytis menntamála. 

Framlag til verkefnisins 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur með samstarfssamningi þessum til verkefnastjóra í stýrihópinn til áframhaldandi undirbúnings og vinnslu verkefnisins.  

Lögsaga 

Leysi samningsaðilar ekki ágreiningsmál sem rísa kunna vegna samnings þessa skal það rekið fyrir Héraðsdómi Austurlands. 

[1]Alcoa Fjarðaál, Austurbrú, Eskja, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Launafl, Loðnuvinnslan, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Rubix (áður Brammer), Samband sveitarfélaga á Austurlandi, Síldarvinnslan, Verkmenntaskóli Austurlands og  VHE.“