Gruna konu um tryggingasvik og efast um mannskætt slys

epa06317068 A man rides a boat along Hoai river in Hoi An, Vietnam, 09 November 2017. Typhoon Damrey made landfall along Vietnam's south-central coast on 04 November morning, ahead of the 25th Asia-Pacific Economic Cooperation summit (APEC) in Da Nang, leaving extensive damage. At least 89 people have died and 18 others still missing, according to media reports.  EPA-EFE/LUONG THAI LINH
Mynd úr safni frá Víetnam Mynd: EPA - RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur í níu ár haft til meðferðar mál konu sem tvö íslensk tryggingafélög gruna um tuga milljóna tryggingasvik. Konan segist hafa misst eiginmann sinn og tvær stjúpdætur þegar bát þeirra hvolfdi í vonskuveðri í Víetnam en tryggingafélögin efast um þá frásögn. Lögreglan hefur beðið í tvö ár eftir svörum frá stjórnvöldum í Víetnam. Lögmaður konunnar segir hafa verið „níðst svakalega á konunni“ og brjóta á réttindum hennar.

Fyrir helgi sneri Landsréttur við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um dómkvaðningu matsmanns í málinu. Konan lagðist gegn kröfu tryggingafélaganna og taldi að þetta myndi hafa í för með sér að málið myndi dragast óþarflega.

Tekist á um dánarvottorð

Matsmaðurinn á að taka afstöðu til víetnamskrar tilskipunar þar sem finna má ákvæði um útgáfu dánarvottorða. Í dómi héraðsdóms kemur fram að  tryggingafélögin hafi dregið í efa að útgáfa dánarvottorðanna hafi verið í samræmi við þær reglur sem koma fram í umræddri tilskipun.

Í úrskurði héraðsdóms er málareksturinn siðan rakinn nokkuð ítarlega.

Konan, sem er búsett í Reykjavík, var með fjölskyldutryggingu hjá VÍS og svo líf-og sjúkdómatryggingu hjá Lífís. Haustið 2010 tilkynnti hún að eiginmaður hennar og tvær dætur hans hefðu látist þegar bát þeirra hvolfdi í Víetnam í vonskuveðri. Fór hún fram á 23 milljónir frá VÍS og 20 milljónir frá Lífís í dánarbætur. 

Efast um frásögn konunnar

Í úrskurði héraðsdóms sést að tryggingafélögin hafa frá upphafi haft efasemdir um frásögn konunnar. Þau höfnuðu kröfu hennar strax í upphafi og tæpu ári seinna kærðu þau hana til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna gruns um tryggingasvik. Þau hefðu fengið vitneskju um að engar upplýsingar hefðu fundist um skipskaða í umræddu landi. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu felldi rannsókn málsins niður fyrir fjórum árum en tryggingafélögin kærðu þá ákvörðun til ríkissaksóknara sem fól lögreglunni að afla frekari gagna.

Lögreglan beðið í tvö ár eftir staðfestingu

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, staðgengill lögreglustjóra, segir í samtali við fréttastofu að málið sé enn opið. „Við höfum verið að bíða í tvö ár eftir staðfestingu á því frá stjórnvöldum í þessu tiltekna landi hvort umræddar manneskjur hafi látist í skipskaða á þessum tíma.“

Að öðru leyti vildi Hulda Elsa ekki tjá sig neitt frekar um málið.

Konan höfðaði mál á hendur tryggingafélögunum og var stefna hennar þingfest haustið 2013. Í því þinghaldi lagði konan meðal annars fram ný dánarvottorð.  Tryggingafélögin lögðu fram samskipti lögmanna við þarlend yfirvöld „þar sem svör við fyrirspurnum um meintan skipskaða voru ekki í samræmi við málatilbúnað konunnar.“

Þá var einnig lagt fram lögfræðiálit þess efnis að gögn konunnar fælu ekki sér lagalega sönnun þess að eiginmaðurinn og dætur hans hefðu látist á þessu svæði á þessum tíma.

Vildu að gerð yrði DNA-rannsókn á líkamsleifum

Tveimur árum seinna skoruðu tryggingafélögin á konuna að hlutast til um að líkamsleifar fólksins yrðu grafnar upp og gerð á þeim DNA-rannsókn. Þessu var hafnað á þeim forsendum að lögð hefðu verið fram fullnægjandi gögn um andlát fólksins. Það væri tryggingafélaganna að afla slíkra upplýsinga teldu þau sig geta hnekkt þeim gögnum.

Réttarhöldum var síðan ítrekað frestað á meðan beðið var eftir niðurstöðu úr rannsókn lögreglu. Það var síðan í febrúar á þessu ári sem óskað var eftir fyrirtöku málsins og jafnframt upplýst að rannsókn lögreglu væri ekki lokið en henni miðaði ekkert.  Í mars fór síðan fram fyrirtaka þar sem ákveðið var að halda áfram með málið þrátt fyrir að niðurstaða lögreglurannsóknar lægi ekki fyrir. 

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er líklegt að aðalmeðferð í málinu verði í vetur. Steingrímur Þormóðsson, lögmaður konunnar, sem er frá Víetnam en hefur verið búsett hér lengi, segir hafa verið níðst svakalega á henni og brotið á réttindum hennar. Hann bendir á að hún hafi haft réttarstöðu sakbornings í níu ár. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi