Gömul tíst Rúnars um Wenger rata í bresku pressuna

epa06809534 Iceland's goalkeeper Runar Alex Runarsson in action during a training session in Moscow, Russia, 15 June 2018. Iceland will face Argentina in their FIFA World Cup 2018 Group D preliminary round soccer match on 16 June 2018.  EPA-EFE
 Mynd: EPA

Gömul tíst Rúnars um Wenger rata í bresku pressuna

15.09.2020 - 18:33
Enskir stuðningsmenn Arsenal er ekki par sáttir við markvörðinn Rúnar Alex Rúnarsson sem er líklega á leiðinni til Lundúnar-liðsins. Þeir hafa grafið upp níu ára gömul tíst Rúnars þar sem hann fer heldur ófögrum orðum um Arsene Wenger, goðsögn hjá félaginu. Einhverjir hafa þó tekið upp hanskann fyrir markvörðinn og bent á að Rúnar hafi látið ummælin falla í hita leiksins enda ákafur stuðningsmaður félagsins.

Bresku götublöðin Daily Mail og Metro eru meðal þeirra sem hafa fjallað um þessi gömlu tíst Rúnars. Hann var á táningsaldri þegar hann lét ummælin flakka á samfélagsmiðlinum. Tístin eiga það sameginlegt að Wenger er þar sagður heimskur.  Bent er á að Rúnar hafi nú eytt þessum tístum. 

Enskir stuðningsmenn liðsins hafa sagt að tístin sýni að félagið eigi ekki að kaupa Rúnar frá franska liðinu Dijon.

Bresku blöðin hafa þó bent á að ekki sé allt sem sýnist og mögulega hafi markvörðurinn þarna einfaldlega verið að sýna ástríðu sína fyrir félaginu. Það verði að skoða tímasetningu tístanna.

Þannig hafi eitt tístið verið skrifað um það leyti sem Arsenal seldi Cesc Fabregas, helstu stjörnu félagsins, til Barselóna og annað um það leyti sem liðið tapaði 8-2 fyrir Manchester United. Það hafði þá nýverið selt aðra stjörnu, Samir Nasri til Manchester City.

Samkvæmt fréttum breskra miðla í gær er Rúnar á leið í læknisskoðun hjá Arsenal og er talið að kaupverðið nemi 250 milljónum króna. 

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Rúnar Alex í læknisskoðun hjá Arsenal

Fótbolti

Rúnar Alex sagður á leið til Arsenal