Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Svona er talið líklegast að Jesú hafi litið út

Mynd: Popular Mecanics / Popular Mecanics

Svona er talið líklegast að Jesú hafi litið út

14.09.2020 - 12:50

Höfundar

Það eru engar lýsingar á útliti Jesú Krists í Biblíunni en sérfræðingar telja líklegast að hann hafi verið dökkur yfirlitum, smávaxinn, skegglaus og almúgalegur maður. Ekki er hann talinn hafa skorið sig úr fjöldanum á sínum tíma að fríðleika eða hörundslit eins og á þeim myndum sem við flest þekkjum af frelsaranum.

Myndin af Jesú Kristi sem birtist á Facebook í auglýsingu Þjóðkirkjunnar fyrir æskulýðsstarf kirkjunnar olli vægast sagt usla þar sem hann var með brjóst og andlitsfarða. Mörgum þótti forkastanlegt að Jesú væri sýndur á þennan hátt því það gengi þvert á hugmyndir okkar um útlit hans. Einnig bárust gagnrýnisraddir frá hinsegin samfélaginu þar sem kirkjan var með uppátækinu sökuð um svokallaðan bleikþvott. Því skal þó haldið til haga að margir fögnuðu myndbirtingunni sem Kirkjuþing baðst afsökunar á um helgina. Myndin hefur nú verið fjarlægð af Facebook-síðu kirkjunnar.

Pétur G. Markan, samskiptastjóri kirkjunnar, sagði fyrr í vikunni að með myndbirtingunni hefði átt að sýna að kirkjan fagnaði fjölbreytileikanum en Grétar Halldór Gunnarsson, prestur í Grafarvogskirkju, sagði myndina mistök sem farið öfugt ofan í marga. Davíð Þór Jónsson sóknarprestur Laugarneskirkju segist hins vegar persónulega harma afsökunarbeiðni kirkjuþings. „Vegna þess ef það var eitthvað sem Jesú Kristur stóð ekki fyrir þá var það að tipla á tánum í kringum móðgunargirni þeirra sem litu á sig sem prókúruhafa  hins trúarlega sannleika.“ Hann segir að myndin sem oftast er máluð upp af frelsaranum sé kolröng hvort eð er svo það skjóti skökku við að agnúast yfir því sem talið sé rangt í útliti manns sem leit líklegast allt öðruvísi út en við höldum.

Mynd með færslu
 Mynd: Þjóðkirkjan - Kynningarefni
Myndin umdeilda af trans Jesú sem nú hefur verið fjarlægð

Hvorki ljós né hávaxinn

Sú mynd sem við höfum flest í huganum af Jesú er af hávöxnum og feiknafríðum ljósum manni með sítt hár og skegg. Vera Illugadóttir, útvarpskona og grúskari, hefur mikið velt fyrir sér útliti Krists og hefur ágætis mynd af því hvernig hann gæti hafa litið út. Hún segir undarlegt að þræta mikið um útlit Krists. Við vitum lítið um útlit hans þar sem engar lýsingar á því sé að finna í Biblíunni. Það megi þó telja nokkuð líklegt að hann hafi ekki skorið sig úr fjöldanum og rifjar Vera upp söguna af því þegar Rómverjar leituðu hans en fundu ekki fyrr en þeim var bent á hver hann væri. „Hann virðist hafa litið út eins og meðalmaður svo það má ætla að hann hafi ekki verið sérlega hávaxinn og ljós yfirlitum fyrir botni Miðjarðarhafs á þessum tíma,“ segir hún. Og það var til dæmis ekki algengt að menn væru með skegg þegar þar sem hann lifði. „Tískan var að menn væru stutthærðir og sléttrakaðir. Það voru helst einhverjir flökkumenn og heimspekingar sem höfðu ekki tíma til að raka sig því þeir voru með höfuðið í skýjunum eða eitthvað slíkt.“ Það kunni þó að vera að Jesú hafi verið með skegg en ólíklegt að hann hafi verið síðhærður. „Það er minnst á það í Biblíunni, Páll Postuli sagði að það væri skammarlegt að vera síðhærður. Hann hefði varla tekið svo til orða ef Jesús sjálfur hefði skartað síðu hári.“

Jafnvel sagður lítill og ljótur

Hvernig hann þó leit út segir hún hafa verið umdeilt í ritum og sagnfræði og að mismunandi lýsingar megi finna í trúarritum frá annarri, þriðju og fjórðu öld. „Í sumum er hann sagður hafa verið lítill og sérlega ljótur en þau rit eru ekki endilega eftir vini kristindómsins. Síðan er það sagan samkvæmt trúheitum mönnum að hann hafi verið sérstaklega fagur á að líta,“ segir hún. Hann var jafnvel sagður frekar smávaxinn fyrir hans tíma en Vera segir að hvort sem hann var smávaxnari en meðalmaður eða ekki myndi hann þykja smávaxinn ef hann birtist okkur í dag, „því meðal hæð karlmanna fyrir botni Miðjarðarhafs var í kringum 155-170 cm.“

Myndir líklega byggðar á myndum af Seifi og Júpíter

Allra fyrstu teikningar sem varðveist hafa af Jesú eru frá Sýrlandi um árið 235 og þar er hann stutthærður og sléttrakaður. „Síðan undir lok þriðju og í byrjun fjórðu aldar byrjar þessi Jesús sem við þekkjum að birtast á myndum með skegg og síðara hár.“ Þannig fari hann að taka á sig mynd í trúarlegri list að austan sem verður til í býsönsku hefðinni og það er ímynd sem menn telji jafnvel byggða á myndum af öðrum guðum og valdamönnum. „Jesús fer að minna á myndir af hinum gríska Seifi og Júpíter Rómverja og myndum sem Býsansmenn gerðu af keisurum og konungum og yfirbragðið er valdsmannslegra,“ segir hún.

Þetta verður með tímanum hin hefðbundna mynd af Jesú. Hún er þó ekki óumdeild í Vestur Evrópu þar sem hann er öldum saman sýndur óskeggjaður, „en loks verður almennt samþykkt að hann hafi verið skeggjaður.“

Svartur í Eþíópíu og líkur Kínverja í Kína

Myndin sem við höfum af Jesú í dag er því að byrja að mótast um 300 árum eftir lát og mögulega upprisu hans. Á Vesturlöndum er hann oftast sýndur hvítur en um allan heim sýna kristnir menn myndir af Jesú sem líkjast þeirri þjóð sem tilbiður hann. Í eþíópísku kirkjunni er til dæmis mynd af svörtum Kristi og Kínverjar hafa teiknað myndir af honum þar sem hann líkist Kínverja.

Frægasta tilraunin til að fá botn í raunverulega ásýnd Jesú var gerð í heimildarþáttum um ævi hans sem breska Ríkisúrvarpið gerði árið 2001. Þar var réttarmeinafræðingurinn  Richard Neave fenginn til að endurgera ásjónu Krists. Neave sérhæfir sig í að endurgera andlit fólks úr fortíðinni með því að setja leir um höfuðkúpur og móta síðan andlit og setja á það hár. „Hann notar svoleiðis leið og fyrir þennan þátt fékk hann í samstarfi við fornleifafræðinga í Ísrael nokkrar höfuðkúpur sem varðveist höfðu af meðalmönnum frá því á dögum Jesú í nágrenni Jerúsalem,“ segir Vera. „Hann notaði svo myndir og annað til að ákvarða húðlit og hár og bjó til mynd af því hvernig hann gæti hafa litið út.“ Og mynd af þessum mögulega Jesú birtist í þættinum þar sem sjá má frelsarann með kartöflunef, dökkan á hörund með dálítið skegg. „Þessi mynd hefur farið víða og líkist Palestínumanni í dag, má segja.“

Vera Illugadóttir var í Morgunvaktinni á Rás 1.

 

Tengdar fréttir

Trúarbrögð

„Ég læt brimið dynja á mér án þess að gefa eftir“

Trúarbrögð

„Þetta voru mistök, engin spurning“

Trúarbrögð

„Skiptir ekki máli hvort Jesús sé trans, kona eða karl“