Rúnar Alex sagður á leið til Arsenal

Mynd með færslu
Rúnar Alex á æfingu með íslenska landsliðinu í Rússlandi. Mynd: EPA - RÚV

Rúnar Alex sagður á leið til Arsenal

14.09.2020 - 09:48
Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður Dijon í Frakklandi og landsliðsmaður í fótbolta, er sterklega orðaður við Arsenal í enskum fjölmiðlum. Honum er ætlað að fylla skarð Emiliano Martinez.

Rúnar Alex er 25 ára gamall og hefur verið í röðum Dijon frá 2018. Áður lék hann með Nordsjælland í Danmörku en er uppalinn hjá KR. Hann á að baki 5 landsleiki fyrir Ísland.

Markmannsþjálfari Rúnars Alex hjá Nordsjælland var Inaki Cana sem nú er markmannsþjálfari Arsenal. Cana var í millitíðinni hjá Brentford og reyndi þá að fá Rúnar Alex til Brentford og virðist hafa mikið álit á KR-ingnum. 

Aðalmarkvörður Arsenal er þýski landsliðsmaðurinn Bernd Leno. Argentínumaðurinn Emiliano Martinez leysti Leno af hólmi þegar Þjóðverjinn meiddist í sumar og þótti standa sig með eindæmum vel. Hann er á leið til Aston Villa og því vantar mann með Leno.

Rúnar Alex hefur ekki spilað mikið með Dijon síðustu tvær leiktíðir. Hann lék mikið fyrsta veturinn hjá liðinu en tækifærum fækkaði í fyrra í kjölfar meiðsla og hefur hann svo setið á bekknum í byrjun leiktíðar nú. 

Fari hann til Arsenal verður hann fjórði Íslendingurinn sem leikur með liðinu. Albert Guðmundsson lék með liðinu 1946, Sigurður Jónsson var þar 1989-1991 og Ólafur Ingi Skúlason var í unglingaliði félagsins og spilaði einn leik með aðalliðinu í deildarbikarkeppninni 2005. Þá voru bræðurnir Valur Fannar og Stefán Gíslasynir í unglingaliði félagsins en léku ekki með aðalliðinu.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Óvissa um Rúnar Alex vegna meiðsla

Fótbolti

Rúnar Alex í liði umferðarinnar

Fótbolti

Rúnar Alex til Dijon í Frakklandi