Leigjendur unnu mikil skemmdarverk á sumarbústað

13.09.2020 - 23:27
Mynd með færslu
 Mynd: Hjörtur Guðmundsson - Facebook
Hjörtur Guðmundsson, sumarbústaðaeigandi við Kirkjufell á Snæfellsnesi ætlar að kæra skemmdarverk sem unnin voru af leigjendum bústaðar hans. Hann greinir frá skemmdarverkunum á Facebooksíðunni Landið mitt Ísland og birtir myndir af ömurlegri aðkomu. 

Fjórir ungir menn tóku bústaðinn á leigu í eina nótt og lögðu á þeim tíma bústaðinn í rúst af myndum að dæma. Rúður eru brotnar og ýmis skemmdarverk unnin á innanstokksmunum. Einnig var stolið sjónvarpi og útvarpi úr næsta bústað og farið inn í nærliggjandi vélageymslu þar sem rúður voru brotnar í dráttarvél. Grunur leikur á að leigjendurnir hafi verið þar að verki.

Bústaðurinn var leigður í gegnum íslenska bókunarsíðu. Hjörtur telur litlar líkur á að hann fái tjónið bætt, og allur kostnaður komi til með að falla á hann. Hjörtur telur að það eigi eftir að taka um tvo til þrjá daga að þrífa bústaðinn. Sprautað var úr duftslökkvitæki sem var í bústaðnum, og segist hann þurfa að kanna hvernig best sé að þrífa það upp. Svo þarf að panta tvær rúður, sem tekur einhvern tíma. 

Hann segist yfirleitt hafa verið umburðarlyndur gagnvart ungu fólki og verið heppinn með legjendur. „Ég vissi alveg að það yrði partý og vond umgengni. Það kemur stundum fyrir. En þessu átti ég ekki von á," segir Hjörtur í samtali við fréttastofu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi