Í sérútbúna flokknum voru 13 keppendur skráðir til leiks. Átökin í gryfjunum í Glerárdal voru mikil og velti Ásmundur Ingjaldsson bíl sínum harkalega í sjöttu og síðustu braut en slapp að sjálfsögðu ómeiddur, þökk sé góðum öryggisbúnaði. Hann varð þó að sætta sig við fimmta sætið í flokknum.
Í þriðja sæti varð Ólafur Bragi Jónsson á nýsmíðaða Refnum, hann var þó tæpum 400 stigum á eftir öðru sætinu. Slagurinn á toppnum var á milli þeirra Hauks Einarssonar á Eurol Heklunni og Ingólfs Guðvarðarsonar á Guttanum Reborn.
Haukur náði forustu í fyrstu braut og leiddi í hádegishléi en í þriðju braut, sem var tímabraut, náði Ingólfur forystunni eftir frábæran akstur.
Haukur gerði mistök í fjórðu braut sem að þýddi að góður og yfirvegaður akstur Ingólfs í síðustu brautum keppninnar tryggði honum sigurinn, 100 stigum á undan Hauki.
Skúli Kristjánsson á Simba var jafn Ingólfi í fyrsta sæti Íslandsmótsins fyrir keppnina en hann varð frá að hverfa í fjórðu braut og eru titilvonir Skúla því úr sögunni.
Ingólfur leiðir mótið þegar ein umferð er eftir með 9 stiga forskot á Hauk, því nægir Ingólfi fimmta sætið í síðustu umferðinni sem fram fer í Hafnarfirði 3. október.
Í götubílaflokki varð það enn og aftur Steingrímur Bjarnason sem sigraði og er hann með fullt hús stiga í Íslandsmótinu.
Sjá má viðtöl við Ingólf Guðvarðarson og Hauk Viðar Einarsson í myndskeiðinu við þessa frétt Braga Þórðarsonar.