Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Er ekki kominn tími til að prófa eitthvað nýtt?“

Mynd: RÚV / Nýjasta tækni og vísindi

„Er ekki kominn tími til að prófa eitthvað nýtt?“

13.09.2020 - 12:31

Höfundar

Nýjasta tækni og vísindi fara aftur í loftið á mánudagskvöld eftir að hafa legið í dvala frá 2004. Það var fyrrum umsjónarmaðurinn Sigurður H. Richter sem hóf þáttinn með nokkrum föðurlegum ráðleggingum til nýju umsjónarmannanna, Eddu Elísabetar Magnúsdóttur, Sigmars Guðmundssonar og Sævars Helga Bragasonar.

„Er ekki kominn tími til að prófa eitthvað nýtt?“ segir Sigurður þegar Sigmar Guðmundsson byrjar fyrsta þáttinn nánast eins og þá gömlu, í svipuðu setti og með sömu grafíkina. „En hann mætti gjarnan setja á sig bindi,“ bætir hann svo við. Nýjasta tækni og vísindi hófust á fyrsta ári sjónvarpsins og voru þá hluti af fréttum. Sigurður segir að þau hafi þó fljótlega orðið sjálfstæður þáttur undir stjórn Örnólfs Thorlacius. Sigurður kom inn í þáttinn á móti Örnólfi árið 1974 en frá 1980 sá Sigurður einn um þáttinn. „Til ársins 2004. Þá voru komin þrjátíu ár og þá fannst mér tími til að hætta. Ég var að telja þetta saman, mér sýnist þetta hafa verið 515 þættir sem ég sá um.“ 

Miklar breytingar urðu auðvitað á tækninni á þessum 30 árum sem Sigurður sá um þáttinn, en hann segir af þeim sé tölvubyltingin líklega stærst. „Hún hefur náttúrulega gjörbreyst frá því ég var með fyrsta þáttinn, það hafa gerst breytingar sem enginn sá fyrir.“ Þegar Sigurður byrjaði með þáttinn var ekkert internet til þar sem hægt var að leita sér upplýsinga svo hann reiddi sig á bækur og símtöl við sérfræðinga. „Því maður vildi gjarna hafa þetta sem réttast. En því var yfirleitt mjög vel tekið.“

Fyrsti þátturinn í endurkomu Nýjasta tækni og vísindum er á dagskrá RÚV á mánudagskvöld. Þar verður ferðast til Wyoming í Bandaríkjunum til að mynda almyrkva á sólu, loftsteinagígurinn í Arizona skoðaður og rætt um klæðanlega tækni, snjallvæðingu heimilistækja og skammtatölvur.