Undirliggjandi ofsi í þroskasögu Ferrante

Mynd: Benedikt / Benedikt

Undirliggjandi ofsi í þroskasögu Ferrante

12.09.2020 - 16:14

Höfundar

Elena Ferrante er á kunnuglegum slóðum í nýjustu bók sinni, Lygalífi fullorðinna. Þessi frásögn um unga stúlku úr efri byggðum Napólí er þroskasaga innan goðsagnaramma, segir þýðandi bókarinnar Halla Kjartansdóttir. „Sagan hefur táknræna merkingu. Hún er full af leiðarstefjum og ævintýraminnum.“

Með vinsælustu bókum í heimi um þessar mundir eru bækur ítölsku huldukonunnar Elenu Ferrante. Vinsældir bóka hennar, sem nú eru orðnar ellefu, ná kannski ekki alveg með tærnar þar sem Harry Potter á sínum tíma hafði hælana en það munar ekki miklu. Fyrsta bók hinnar óþekktu Elenu Ferrante kom út árið 1992 og bók númer tvö ekki fyrr en tíu árum síðar. En það var ekki fyrr en með fjórleiknum um napólítönsku vinkonurnar Lenu og Lilu sem kom út á árunum 2011-2014 og í þýðingum út um allan heim strax í kjölfarið, meðal annars á Íslandi á árunum 2015-18, að nafn Elenu Ferrante hóf þaulsetur á bóksölulistum um allan heim.

Og nú er nýjasta bók hennar La vita bugiarda degli adulti komin út á íslensku í þýðingu Höllu Kjartansdóttur og heitir Lygalíf fullorðinna. Greinilegt er að útgefendurnir ætla henni viðlíka vinsældir. Líkt og í fjórleiknum er hér Napólíborg sögusviðið en nú erum við komin í efri byggðir þeirra hæðóttu borgar þar sem betri borgararnir hafa komið sér fyrir.

Aðalpersónan og sögumaður bókarinnar er hin þrettán ára gamla Giovanna Tarda. Hún kannast ekkert við sig í hverfunum í kringum höfnina þar sem Lila og Lenu, aðalpersónur Napólísagna Ferrante, gösluðu um og dreymdi margt. Vissulega hefur Giovanna komið í neðri byggðir borgarinnar endrum og sinnum þegar hún var barn að heimsækja föðurömmu sína og afa með foreldrum sínum. En eftir andlát þeirra hafa samskipti föður Giovönnu við föðurfjölskyldu sína, og þar með systurina Vittoriu, rofnað með öllu. Það hefur meira að segja verið krotað vandlega yfir Vittoriu á gömlum ljósmyndum.

Það er ekki hlaupið að því að rekja það sem gerist, er hugsað og ályktað í þessari þéttriðnu skáldsögu, enda einfaldlega best að lesa hana. Hitt má segja að umfjöllunarefni sögunnar eru fjölmörg, enda margt að takast á við á þessum mótsagnafullu tímamótum barns og fullorðins, bæði til líkama og sálar. Giovanna veit oftar en ekki sitt rjúkandi ráð, hvenær er fólk að segja satt og hvenær er það að ljúga og leika. Þetta er bók sem býður upp á ýmsa dansa, líðandi vals jafnt sem snarpt rokk. Þýðandinn Halla Kjartansdóttir er líklega sú sem þekkir Lygalíf fullorðinna best.

Mynd með færslu
 Mynd: Benedikt

Halla tekur undir það að bókin minni óneitanlega á fjórleik Ferrante. „Þetta er auðvitað saga af vinkonum líka og þroskasaga stúlku. Fyrst hugsaði ég „er ég að lesa unglingasögu?“ Hún er með unga 14-15 ára stelpu sem sögumann en svo kemur auðvitað í ljós að sagan er í endurliti, þetta er upprifjun á æsku og uppvexti og það kemur fram inn á milli að sögumaður er kominn talsvert langt frá atburðunum sem hann lýsir,“ segir Halla.

„Sagan hefur táknræna merkingu,“ bætir Halla við. „Hún er full af leiðarstefjum og ævintýraminnum. Þetta er táknræn þroskasaga stúlku. Allar þessar umbreytingar sem hún gengur í gegnum eru tilfinningalegar og líkamlegar en birtingarformin eru á margan hátt táknræn. Hún er að kljást við foreldra sína, föðurmyndina, hún þarf að slíta sig lausa og kanna nýja slóðir. Allt er þetta í goðsagnakenndum ramma finnst mér.“

Giovanna er vissulega aðalpersóna bókarinnar en í raun er þetta bók fjölmennis; margra, margra persóna. „Hún nær að búa til persónur þar sem hver hefur sitt hlutverk innan sögunnar og [Ferrante] er mjög snjöll í þessu; að tengja alls konar litlar persónur inn og vekja forvitni um þær,“ segir Halla.

Svo eru það karlarnir, sem eru svolítið ofsafengnir, jafnvel ofbeldisfullir. „Þetta er Napolí og borgin birtist í karakterunum finnst mér,“ segir Halla. „Það er þessi undirliggjandi ofsi, undirliggjandi kúgun, stéttskipting og bæling. Svo brjótast tilfinningarnar fram á undarlegustu tímum og stöðum. Það sem við Íslendingar tökum eftir er að mýtan um karlmanninn er svo sterk. Hann er enn á stallinum. Þetta er þjóðfélag sem er gegnsýrt af dýrkun á feðraveldinu. Ítalir eiga enn mjög langt í land í kvenfrelsisbaráttu og það liggur bæði í kaþólskunni og í mótun samfélagsins. Þannig að þetta er eitthvað sem við erum að berjast við enn þá, en kannski á annan hátt. Þarna eru þetta mjög skýrar línur í sögunni, staða karlmannsins er önnur, þrátt fyrir að þarna séu konur og sérstaklega unga stúlkan að brjótast út úr gömlu hefðinni og hefðbundna kvenhlutverkinu; hún ætlar sér að mennta sig og svo framvegis og verða sjálfstæð í lífinu.“

Unglingar hefðu líklega gott af því að lesa bókina og gætu skemmt sér í þeirri speglun sem þar getur átt sér stað. „Ég held að hún spanni mjög breitt aldursbil,“ segir Halla. „Ef það er rétt sem sagt er að höfundur, hver sem hann er, sé á áttræðisaldri og fæddur einhvern tímann í kringum 1940, og skrifar um þessa 14 ára stelpu, sögu sem er tímalaus að mörgu leyti, þá er þarna tímalaus klassík á ferð að mínu mati.“