Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Nauðsynlegt að óska eftir því að lokað sé fyrir símtöl

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Fara þarf fram á það við fangelsismálayfirvöld sérstaklega, að lokað sé fyrir að fangar geti hringt í ákveðin símanúmer úr fangelsum. Fangelsisstjórinn á Hólmsheiði segir að slíkar beiðnir berist mjög reglulega.

Í fréttum RÚV á fimmtudag sagði Kamilla Ívarsdóttir frá grófu og ítrekuðu ofbeldi af hendi þáverandi kærasta síns. Maðurinn, sem er tuttugu og eins árs, var í mars dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir ofbeldisbrot og hótanir gegn Kamillu og annarri stúlku, sem er barnsmóðir hans. Maðurinn sætir ákæru fyrir ítrekuð brot gegn nálgunarbanni, en hann hringdi 122 sinnum í Kamillu úr fangelsinu á Hólmsheiði.

Halldór Valur Pálsson, fangelsisstjóri á Hólmsheiði, segir að almennt sé ekki fylgst með því í hverja fangar hringja.

„Við höfum öll tæki og tól til þess að skoða símnotkun úr fangelsunum og getum fylgst með henni ef þess er þörf. Eins búum við yfir þeim möguleika að við getum lokað á hringingar í tiltekin númer, sé þess óskað af lögreglu eða rétthöfum númers af einhverjum ástæðum. Og við verðum við því ef þess er óskað.“

Halldór Valur segir að það sé algengt að slíkar beiðnir berist.

„Já það er tiltölulega algengt. Við fáum mjög reglulega slíkar beiðnir þar sem fólk af ýmsum ástæðum óskar eftir því.“ 

Grípa strax inn í

En er eðlilegt að fangi geti hringt í einhvern sem hann sætir nálgunarbanni gagnvart 122 sinnum, úr fangelsinu?

„Það er spurning af hverju sú staða kemur upp. En það er ekkert því til fyrirstöðu hjá okkur að bregðast við því og koma í veg fyrir að það sé hægt, ef beiðni þess efnis kemur. Hvort sem það er frá lögreglu eða öðrum. Og þá verðum við við því án tafar og grípum inn í strax.“

Ætti það ekki að gerast sjálfkrafa, að lokað sé fyrir númer þeirra sem fangar sæta nálgunarbanni gagnvart?

„Ég held að það sé oft flóknara en svo að við getum sagt að það ætti að gerast sjálfkrafa. Það er náttúrulega hægt að hringja í fleiri númer en einhvern einn tiltekinn farsíma. Það er hægt að hringja í heimasíma, símanúmer náinna aðstandenda, á vinnustaði og annað. Þannig að oft þarf að grípa til einhverra lokana sem við höfum kannski ekki upplýsingar um hverjar þyrftu að vera. En við tökum þátt í að leysa þau, ef þau mál koma upp,“ segir Halldór Valur.