Rússaskýrslur áttu að hverfa fyrir Trump

epa06321985 Russian President Vladimir Putin (R) and US President Donald J. Trump (L) talk at the break of a leader's meeting at the 25th Asia-Pacific Economic Cooperation (APEC) summit in Da Nang, Vietnam, 11 November 2017. The APEC summit brings
 Mynd: EPA-EFE - Sputnik Pool
Sérfræðingur í bandaríska heimavarnarráðuneytinu greindi leyniþjónustunefnd Bandaríkjaþings frá því að hann hafi fengið skipun um að hætta að láta vita af tilraunum Rússa til að hafa afskipti af forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Þess í stað átti hann að einbeita sér að þætti Kínverja og Írana.

Sérfræðingurinn Brian Murphy segist hafa fengið þessa skipun frá Chad Wolf, starfandi heimavarnarráðherra. Ástæða þess að hann átti að hætta var að hans sögn að ógn frá Rússlandi léti Donald Trump Bandaríkjaforseta líta illa út. Wolf sagði skipunina koma frá Robert O'Brien, þjóðaröryggisráðgjafa Hvíta hússins. Sjálfur segist Murphy hafa neitað að ritskoða skýrslur sínar um afskipti Rússa og ógninni sem stafar af hvítum þjóðernissinnum. Taldi hann að ritskoðun myndi stefna þjóðinni í hættu. Hann var lækkaður í tign í ráðuneytinu í síðasta mánuði.

Uppljóstrun Murphy styður við ásakanir Demókrata á Bandaríkjaþingi um að forsetinn hafi átt við leyniþjónustuskýrslur til þess að styrkja stöðu sína í kosningabaráttunni í haust. Rússar fóru að sögn bandarískra leyniþjónustustofnana mikinn fyrir forsetakosningarnar árið 2016. Þeir hafa síst hægar um sig fyrir þessar kosningar samkvæmt fregnum vestanhafs.

Ítrekuð misbeiting valds

Murphy sagði þingnefndinni að undanfarin tvö ár hafi hann orðið var við ítrekaða misbeitingu valds, tilraunir til ritskoðunar á skýrslum leyniþjónustustofnana og óeðlileg afskipti af verkefnum leyniþjónusta er varða tilraunir Rússa til að hafa áhrif á bandaríska hagsmuni. Hann sagði að honum og yfirmanni hans hafi verið hótað uppsögn vegna skýrslna þeirra um afskipti Rússa af forsetakosningunum.

Ýkti hryðjuverkaógn frá Mexíkó

Þá greindi Murphy jafnframt frá því að Kirstjen Nielsen, fyrrverandi heimavarnarráðherra, hafi vísvitandi ýkt hryðjuverkaógn frá Mexíkó í fyrra til þess að styðja við áætlun forsetans um landamæramúr. Hún hafi vitað að í mesta lagi þrír hryðjuverkamenn hafi reynt að komast yfir landamærin frá Mexíkó. Nielsen tjáði þingnefndinni að þeir hafi verið vel á fjórða þúsund. Auk þess var starfsmönnum ráðuneytisins skipað að gera minna úr spillingu og ofbeldi í ríkjum Mið-Ameríku, af ótta við að flóttamenn leituðu hælis á grundvelli þess.

Fjölmiðlar vestanhafs greina frá því að ráðuneytið hafni alfarið ásökunum Murphy. Alexei Woltornist, talsmaður ráðuneytisins, segir ekkert hæft í fullyrðingum Murphy og ráðuneytið taki á allri hættu sem stafi að þjóðinni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi