Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Meðalsölutími íbúða styttist ört

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Auglýstum íbúðum á fasteignamarkaði hefur fækkað um 18 prósent frá seinni hluta júní. Þinglýstum kaupsamningum í júlímánuði fjölgaði um fimmtung frá sama mánuði í fyrra. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem birt var í dag.

Það er enn mikið líf á fasteignamarkaði, segir í skýrslunni. Á sama tíma og meðalsölutími íbúða styttist ört hækkar íbúðaverð nokkuð á milli mánaða, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Á höfuðborgarsvæðinu tók að jafnaði 43 daga að selja íbúð í fjölbýli í júlí og 50 daga að selja sérbýli. Þessi meðalsölutími hefur ekki verið jafn stuttur frá upphafi mælinga í byrjun árs 2013.

Hrein ný óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum hjá viðskiptabönkunum námu rúmlega 45 milljörðum króna í júlí. Aldrei hafa fleiri slík lán verið gefin út á einum mánuði. Nánast öll ný útlán eru óverðtryggð með breytilegum vöxtum.

Í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segir að gangi núverandi verðbólguspá eftir sé hagstæðara að vera með óverðtryggt lán. Mikilvægt sé þó að hafa í huga að greiðslubyrði á óverðtryggðum lánum getur aukist á næstu árum ef vextir hækka á nýjan leik.