Trump tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels

09.09.2020 - 15:54
epa08575571 US President Donald Trump speaks at a news conference at the White House in Washington, DC, USA, 30 July 30 2020.  EPA-EFE/YURI GRIPAS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - ABACA
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels. Christian Tybring-Gjedde, þingmaður Framfaraflokksins í Noregi, tilnefndi forsetann fyrir að hafa komið á „sögulegu samkomulagi“ til að bæta samskipti Ísraels og Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Trump fagnaði tilnefningunni í færslu á Twitter í dag. AFP fréttastofan greinir frá.

Norskir þingmenn eru meðal þeirra sem hafa rétt til að tilnefna til Nóbelsverðlauna. Tybring-Gjedde er þingmaður hægri flokksins Framfaraflokksins, sem hefur verið skýr í afstöðu sinni gegn innflytjendum í Noregi,  og varaformaður utanríkis- og varnarmálanefndar norska þingsins. Hann gerði árangurslausa tilraun til að tilnefna Trump til verðlaunanna árið 2018 á þeim grunni að honum hefði tekist að bæta samskipti Bandaríkjanna og Norður-Kóreu. 

Trump hefur kvartað yfir því að hann hafi ekki fengið tilnefningu til verðlaunanna hingað til, sérstaklega í ljósi þess að forveri hans Barack Obama fékk friðarverðlaunin árið 2009 í upphafi fyrsta kjörtímabils hans. „Obama fékk verðlaunin. Hann vissi ekki einu sinni fyrir hvað. Hann hafði setið í embætti í 15 sekúndur og fékk Nóbelsverðlaun. Ég fæ þau sennilega aldrei,“ hefur AFP fréttastofan eftir forsetanum í dag. 

Norski þingmaðurinn hefur bent á að verðlaunin eigi að fara til þeirra sem hafa sýnt með gjörðum sínum að þeir verðskuldi þau. Persónuleiki eigi ekki að hafa áhrif á ákvörðunina. Nóbelsverðlaunanefndin hefur ekki tjáð sig um tilnefninguna en sum þeirra sem sitja í nefndinni hafa gagnrýnt forsetann opinberlega. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi