Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Tókust á um Brexit-frumvarp sem talið er brot á lögum

09.09.2020 - 22:30
Erlent · Bretland · Brexit · ESB · Evrópa · Skotland · Stjórnmál
epa08656842 A handout photo made available by the UK Parliament shows British Prime Minister Boris Johnson during Prime Minister's Questions at the House of Commons in London, Britain, 09 September 2020.  EPA-EFE/JESSICA TAYLOR / UK PARLIAMENT HANDOUT MANDATORY CREDIT: UK PARLIAMENT HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - UK PARLIAMENT
Hart var tekist á um fyrirhugaðar breytingar á Brexit-samningnum á breska þinginu í dag. Leiðtogi Skoska þjóðarflokksins spurði hvers vegna breski forsætisráðherrann telji að hann sé hafinn yfir lög.

Áttunda samningalota Breta og Evrópusambandsins er að hefjast og lagði Boris Johnson í dag fram breytingar á útgöngusamningnum, sem lögfræðingar í breska stjórnkerfinu hafa sagt að feli í sér brot á alþjóðalögum. 

Frumvarpið felur í sér breytingar á innri markaði Bretlands eftir úrgöngu úr ESB í janúar, meðal annars þær að breskir ráðherrar geti breytt reglum um flæði vara, ef ekki næst samkomulag um viðskiptasamning við sambandið. Ráðherrar fá einnig rétt til að hnekkja áður samþykktum skuldbindingum um ríkisaðstoð, jafnvel þó að slíkt stríði gegn alþjóðalögum.

Segir frumvarpið móðgun við Skota

Leiðtogi Skoska þjóðarflokksins á breska þinginu, Ian Blackford, segir að breytingarnar fyrirhuguðu séu ekkert annað en árás á skoska þingið og móðgun við Skota. 

„Eins og við höfum þegar  heyrt af, þá brýtur þessi lagasetning í bága við alþjóðalög og landslög,“ sagði Blackford á þinginu í dag. „Forsætisráðherrann og félagar hans, samansafn þrjóta, eru að skapa hér stjórnlaust ríki, þar sem lög og regla eru ekki í hávegum höfð. Hvers vegna heldur forsætisráðherrann að hann og vinir hans séu hafnir yfir lög? spurði leiðtogi Skoska þjóðarflokksins. 

Johnson svaraði því til að með frumvarpinu væri verið að vernda störf og hagvöxt, ásamt því að tryggja sveigjanleika og öryggi innri markaðarins á Bretlandi, og velmegun á Bretlandseyjum öllum. 

Boða til aukafundar á fimmtudag

Fulltrúar Evrópusambandsins og Breta hafa boðað til aukafundar í Lundúnum á fimmtudag vegna frumvarpsins. Þar ætla fulltrúar sambandsins að óska eftir nánari útskýringum á málinu, að því er talsmaður framkvæmdastjórnar ESB, Eric Marner, greindi frá í færslu á Twitter nú í kvöld.