Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Telur sparnaðinn engan þegar upp er staðið

Mynd: RÚV / Björgvin Kolbeinsson
Sparnaður Fangelsismálastofnunar við að loka fangelsinu á Akureyri er um 65 milljónir á ári. Mótvægisaðgerðin, að fjölga lögreglumönnum, kostar 62 milljónir á ári. Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra segir breytinguna hafa áhrif á löggæslu.

Lokun fangelsisins á Akureyri hefur vakið hörð viðbrögð. Þingmenn hafa kallað eftir því að málið verði tekið fyrir á Alþingi og Afstaða, félag fanga, harmar ákvörðunina. Þá kynnti dómsmálaráðherra aðgerðir til að efla lögregluna. Fjórum stöðugildum verður bætt við hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, eða einum manni á vakt. Fangaverðir sinntu áður skammtímaföngum fyrir lögregluna.

Ekki hægt að tala um eflingu lögreglunnar

Kári Erlingsson, formaður lögreglufélags Eyjafjarðar, segir á pistli á Facebook að ekki sé hægt að tala um eflingu lögreglunnar: „Þetta er mótvægisaðgerð og eftir hana hefur löggæslan á svæðinu ekkert eflst, heldur er á svipuðum stað eða verri en fyrir lokun fangelsisins þar sem um 200-300 sinnum á ári, þegar fólk gistir fangaklefa lögreglu, munu tveir lögreglumenn verða bundnir við fangagæslu.“

Enginn sparnaður þegar á heildina er litið

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra, sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun að styrkingin væri jákvæð. Hún dugi samt ekki til þess að koma til móts við lokunina og hafi áhrif á löggæslu. „Í skýrslunni sem Ríkislögreglustjóri gerði fyrir ráðuneytið þá kemur fram að fangelsismálastofnun ætlaði að spara 65 milljónir. Fjögur stöðugildi lögreglumanna á sólarhringsvakt kosta 62 milljónir,“ segir Páley. Þá sé ótalinn annar kostnaður sem eigi eftir að koma í ljós. Þetta sé sparnaður fyrir Fangelsismálstofnun en á móti komi að það þurfi að auka fjármuni til lögreglu. Sparnaðurinn sé því í raun enginn. 

Hefði viljað opnara umboð

„Ég get nú kannski ekki sagt að ég sé ósátt, ég átti von á þessu en þetta eru ákveðin vonbrigði,“ segir Páley. Mat embættisins hafi verið að óbreytt staða væri besti kosturinn. Ríkislögreglustjóra hafi verið falið að koma með tillögur til þess að bæta lögreglunni upp það tjón að missa samstarf við fangelsið. Þeim hafi ekki verið falið að finna bestu og hagkvæmustu lausnina og hún hefði viljað að þeir hefðu fengið opnara umboð til að meta hvað væri hagkvæmast í öllu tilliti. Nú sé hins vegar búið að ákveða þetta og embættið muni vinna samkvæmt því. „Við erum í góðu sambandi við ráðuneytið og við verðum þá bara að upplýsa þá um stöðuna eftir því sem fram líður,“ segir hún.  

Geta nú rekið stóru fangelsin á fullum afköstum

Páll Winkel fangelsismálastjóri segist ekki geta svarað fyrir kostnað varðandi löggæslu á Norðurlandi eystra en geti sagt að með þessu móti verði Fangelsismálastofnun mögulegt að reka stóru fangelsin á Suðurlandi og í Reykjavík á fullum afköstum fyrir það fjármagn sem stofnunin hafi úr að spila í dag.

Ekki náðist í Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, við vinnslu fréttarinnar. 

Viðtalið við Páleyju á Morgunvaktinni má hlusta á í heild hér að ofan.