Semenya tapaði áfrýjun gegn umdeildri reglu

Mynd með færslu
 Mynd:

Semenya tapaði áfrýjun gegn umdeildri reglu

09.09.2020 - 09:20
Suður-afríska hlaupakonan Caster Semenya tapaði í gær áfrýjun fyrir hæstarétti Sviss. Hún freistar þess að fá snúið reglu Alþjóða frjálsíþróttasambandsins sem segir hana verða að taka hormónalyf til að mega keppa. Hún getur því ekki varið Ólympíumeistaratitil sinn í 800 metra hlaupi næsta sumar.

Semenya er tvöfaldur Ólympíumeistari og þrefaldur heimsmeistari í 800 metra hlaupi og algjör yfirburðakona í þeirri grein auk þess að vera öflug í 1500 metra hlaupi líka. 

Árið 2019 setti Alþjóða frjálsíþróttasambandið, IAAF, reglu sem kvað á um að keppendur með hækkað magn náttúrulegs testósteróns í líkamanum yrðu að taka hormóna til að lækka testósterón til að mega keppa. Reglan gilti þó aðeins um keppnir í hlaupum frá 400 metrum til mílu (1,6 kílómetrar) og fannst mörgum sem reglunni væri beitt gegn Semenya. Hún er með hækkað magn testósteróns og þurfti m.a.s. að fara í kynpróf til að sanna að hún væri kona eftir að hafa unnið heimsmeistaratitilinn árið 2009, þá 18 ára gömul. Það vakti mikla úlfúð á sínum tíma.

IAAF segir regluna vera setta til að jafna leikinn, keppendur með hækkað magn testósteróns hefðu ósanngjarna yfirburði yfir aðra keppendur.

Semenya kærði regluna en tapaði fyrir dómstóli IAAF. Þá kærði hún til alþjóða íþróttadómstólsins í Sviss, CAS, en tapaði líka þar. Hún áfrýjaði úrskurði CAS til svissneskra dómstóla sem í júní í fyrra afléttu banninu, aðeins til þess að snúa þeirri ákvörðun í júlí. Í kjölfarið gat hún ekki varið heimsmeistaratitil sinn í Doha í Katar í fyrra. Semenya áfrýjaði til hæstaréttar en tapaði þar í gær. 

„Ég er mjög vonsvikin. Ég neita að láta Alþjóðasambandið lyfja mig til að hindra mig í að vera sú sem ég er,“ sagði Semenya eftir úrskurðinn.

„Að útskúfa kvenkeppendum eða stofna heilsu okkar í hættu vegna náttúrulegrar getu okkar skipar IAAF röngu megin í sögulegu samhengi,“ bætti hún við.

„Ég mun halda baráttunni fyrir mannréttindum kveníþróttafólks áfram, bæði á hlaupabrautinni og utan hennar, þar til við getum allar hlaupið frjálsar eins og við erum fæddar til. Ég veit hvað er rétt og mun gera hvað sem er til að verja grunnmannréttindi fyrir ungar stúlkur alls staðar,“ sagði Semenya.

IAAF fagnar niðurstöðunni í nafni réttlætis

Alþjóða frjálsíþróttasambandið fagnaði niðurstöðunni. Líkt og Semenya segist sambandið berjast fyrir jafnrétti.

„Undanfarin fimm ár hefur IAAF barist fyrir og varið jafnan rétt og jöfn tækifæri kvenna og stúlkna í okkar íþrótta, í dag og til framtíðar. Við fögnum því ákvörðun hæstaréttar Sviss að staðfesta reglu okkar sem lögmæta og hófsama leið til að verja rétt allra kvenkeppenda til þátttöku í okkar íþrótta á sanngjörnum vettvangi.“

Hæstiréttur Sviss sendi líka frá sér yfirlýsingu. Þar segir meðal annars:

„Sanngirni í íþróttum er lögmætt áhyggjuefni og er undirstöðuatriði íþróttakeppni. Þetta er ein grunnundirstaðanna sem keppni byggir á.“

Rétturinn bætti við að ekki væri grafið undan rétti Semenya til „mannlegrar reisnar“ með því að ákveða að líffræðilegir eiginleikar íþróttafólks geti gilt ofar kynvitund þess til að verja sanngjarna íþróttakeppni.

Semenya mun því ekki geta varið Ólympíumeistaratitil sinn í 800 metra hlaupi í Tókýó næsta sumar. Hún hefur áður sagst stefna á að keppa í 200 metra hlaupi í Tókýó, en fyrir þá grein þarf hún ekki að taka hormónalyf. Til að ná því þarf hún að hlaupa á 22,80 sekúndum en besti tími hennar til þessa í 200 metrum eru 24,26 sekúndur. 

Hvers vegna er testósterón bannað

Testósterón er anabólískur steri, og aðalhormón karlmanna, sem eykur getu íþróttafólks, bæði karla og kvenna. Inntaka sterans er því bönnuð í keppni. 

Líkaminn framleiðir þó náttúrulega testósterón. Það sem flækir málið er að magn testósteróns í líkama fólks er æði misjafnt. Því hefur ætíð flækst fyrir yfirvöldum íþróttamála að ákvarða hversu mikið af testósteróni sé of mikið. Sum umræða er mun eldri en Caster Semenya.

Hægt er að greina á milli íþróttafólks með hærra testósterón og þess íþróttafólks sem tekur inn testósterón með hormónaprófum. Testósterón er hærra í körlum en konum og er ákvörðun IAAF um lækkun þess hjá konum meðal annars byggð á því að konur með hækkað magn testósteróns séu karllægari en keppinautar þeirra. Testósterón leiðir meðal annars til aukins vöðvamassa og styrks.

Alþjóða frjálsíþróttasambandið hafði lengi leitað leiða til að setja reglu um hækkað testósterónmagn kvenna. Fyrsta reglan var sett árið 2011 en CAS sneri henni og sagði IAAF að finna sannanir máli sínu til stuðnings. Tvö ár voru gefin til þess.

Árið 2018 var svo reglan sem nú gildir sett og tók hún gildi í maí 2019. Semenya hefur barist gegn reglunni frá fyrsta degi. Hún hefur notið liðsinnis margra í baráttunni, meðal annars margs af fremsta frjálsíþróttafólki heims. Þá hafa alheimssamtök lækna, WMA, barist við hlið hennar og lagst gegn því að læknar fylgi reglunni á grundvelli siðferðis og mögulegrar hættu af því að láta íþróttafólk taka hormóna á grundvelli annarra sjónarmiða en læknisfræðilegra. Þá hefur Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna kallað eftir því að reglan verði afnumin.

Lagalega er óvíst hvaða skref Semenya getur tekið næst. Mál hennar er einnig talið vera fordæmisgefandi í málefnum transfólks sérstaklega transkvenna. Mögulegt er talið að Alþjóða Ólympíunefndin setji reglu um hormónagildi transkvenna að loknum Ólympíuleikunum í Tókýó næsta sumar.

Fréttin er byggð á fréttum frá BBC og The New York Times.

Tengdar fréttir

Frjálsar

„Ég er skotmark af því að ég er ósigrandi“

Frjálsar

Semenya fær ekki að verja titilinn

Frjálsar

Semenya áfrýjar - „Þeir munu ekki dópa mig“