Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fjölmargar athugasemdir Geislavarna í eftirlitsskýrslum

Mynd: RÚV / RÚV
Geislavarnir ríkisins hafa gert athugasemdir við starfsemi leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins undanfarin ár, en segja reglu frekar en undantekningu að slíkar athugasemdir séu gerðar. Stofnunin hefur ekki haft tök á að fara í eftirlitsferð í ár vegna kórónuveirufaraldursins.

Geislavarnir ríkisins hafa eftirlit með röntgentækjum leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands. Áhersla er lögð á þætti sem hafa áhrif á geislun starfsfólks og sjúklinga og önnur gæðamál, svo sem þekkingu starfsmanna og menntun. Geislavarnir hafa því aðeins eftirlit með skimun vegna brjóstakrabbameins en ekki á leghálsskimun sem hefur verið til umfjöllunar undanfarið. Annað hvert ár fara fulltrúar stofnunarinnar í eftirlitsferðir á leitarstöðina og hafa gert athugasemdir síðustu þrjú skipti; árin 2013,15 og 18.

Samkvæmt úttektunum 2015 er búið að bregðast við athugasemdum sem gerðar voru tveimur árum fyrr. 2018 átti eftir að vinna úr tveimur athugasemdum frá árinu 2015. Þá vantaði meðal annars mælikvarða um framgang og árangur af hópskoðun þó að Krabbameinsfélagið hefði ætlað að skipa verkefnisstjóra til að sjá um það 2015.

2018 gerði stofnunin fimm athugasemdir; það vantaði viðeigandi mælikvarða á árangur leitarstöðvarinnar af hópskoðun í samræmi við evrópska staðla, þá var gerð krafa um að hefja reglulegt mat á myndgæðum þegar í stað auk greininga á úrkasti. Upplýsingar um geislaskammta vantaði og yfirlit yfir niðurstöður gæðamælinga sem staðfestir að mælingar hafi verið framkvæmdar samkvæmt samþykktri gæðaáætlun. 

Um haustið höfðu Geislavörnum borist gögn sem sýndu að Krabbameinsfélagið væru farnir af stað með úrbætur sem krafist var. Stofnunin ætlaði að kanna stöðu þeirra úrbóta sem væri ólokið árið eftir og óska eftir gögnum um einstaka þætti. Það eftirlit frestaðist hins vegar og vegna kórónuveirufaraldursins hefur eftirlitsferð líka frestast í ár. Í skýrslunni frá 2018 er talað um að skráning á menntun og þjálfun starfsmanna verði athuguð sérstaklega við næsta eftirlit, sem og að verkferlar við hóprannsóknir annars vegar og klínískar rannsóknir hinsvegar séu skýrir og skráðir í gæðahandbók. 

Fulltrúar krabbameinsfélagsins segja að öllum úrbótum frá 2018 sé lokið. Forstjóri geislavarna segir í samtali við fréttastofu að það sé regla frekar en undantekning að gerðar séu athugasemdir við eftirlit á heilbrigðisstofnunum. Geislavarnir sjá um tæknilegt eftirlit en landlæknir sér um klínískt eftirlit.